Neitaði að láta ræningja fá síma og peninga

Tveir ungir menn veittust að konu við heimili hennar og ógnuðu henni, meðal annars með eggvopni, í hverfi 201 í Kópavogi í gærkvöldi og sögðu henni að gefa þeim síma sinn og peninga.

Tilkynning um þetta barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu upp úr klukkan hálfátta.

Konan neitaði og sagðist ætla að hringja á lögregluna. Mennirnir fóru burt í bifreið en voru handteknir skömmu síðar og vistaðir fyrir rannsókn málsins í fangageymslu lögreglu, að því er kemur fram í dagbók lögreglunnar. 

Brotist inn í vinnuskúr

Upp úr klukkan níu í gærkvöldi var tilkynnt um innbrot í vinnuskúr í miðbæ Reykjavíkur. Sá sem lét lögregluna vita sá mann brjóta rúðu og fara inn. Gerandinn var farinn af vettvangi er lögregla kom og er ekki vitað hvort einhverju hafi verið stolið.

Sagðist hafa ekið á steinstólpa

Afskipti voru höfð af ungum ökumanni bifreiðar í hverfi 105 skömmu fyrir klukkan tvö í nótt.  Maðurinn kvaðst hafa ekið bifreið sinni á steinstólpa og var bifreiðin óökufær eftir óhappið. Ökumaðurinn var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna og var hann að lokinni sýnatöku vistaður fyrir rannsókn máls í fangageymslu lögreglu.  Bifreiðin var flutt af vettvangi með Króki.

Langt yfir hámarkshraða

Skömmu eftir miðnætti var bifreið stöðvuð eftir hraðamælingu í hverfi 104.  Mældur ökuhraði var 112 km/klst þar sem hámarkshraðinn er 60 km/klst.

mbl.is