Njóta lífsins í botn

Sólveig Rún Samúelsdóttir og Kristján Már Jónsson frá Akranesi njóta …
Sólveig Rún Samúelsdóttir og Kristján Már Jónsson frá Akranesi njóta lífsins í Kaupmannahöfn. mbl.is/Steinþór Guðbjartsson

Kristján Már Jónsson og Sólveig Rún Samúelsdóttir frá Akranesi hafa stundað nám og vinnu í Kaupmannahöfn undanfarin ár og eru ekki á heimleið á næstunni. „Ég lýk við BA-hluta læknisfræðinnar í Kaupmannahafnarháskóla fyrir jól og á síðan eftir þrjú ár í kandídatinn, en framhaldið er síðan óráðið,“ segir Sólveig. Nú hafi hún áhuga á því að sérhæfa sig í svæfinga- eða hjartalækningum en það geti breyst. Á meðan unir Kristján sér í móttöku á hóteli í gamla bænum.

Parið er frá Akranesi. Þau vissu hvort af öðru sem börn og unglingar en rugluðu ekki saman reytum sínum fyrr en tíu dögum áður en Sólveig fór út í námið. „Við bundumst tryggðaböndum á Fiskideginum mikla á Dalvík 2017 og hann kom út ári á eftir mér,“ upplýsir hún. Bætir við að hún hafi fengið áhuga á læknisfræði vegna starfa í Björgunarfélagi Akraness. Námskeið í fyrstu hjálp hafi kveikt í sér. „Líffræði og efnafræði hafa alltaf legið vel fyrir mér, verið mínar sterkustu námsgreinar, og vegna þessa varð læknisfræði fyrir valinu.“ Hún hafi ekki komist í gegnum niðurskurðinn í Háskóla Íslands, hafi sótt um í Kaupmannahöfn í kjölfarið, verið tekin inn í skólann og njóti námsins og lífsins í höfuðborg Danmerkur í botn.

Skellt í lás

Kristján hefur unnið í móttökunni á Good Morning Copenhagen-hótelinu við Colbjørnsensgade, skammt frá aðaljárnbrautarstöðinni, frá því um miðjan janúar í fyrra. Hann var spenntur fyrir nýja starfinu en kórónuveirufaraldurinn hefur heldur betur sett strik í reikninginn. „Tveimur mánuðum eftir að ég byrjaði var skellt í lás í Danmörku,“ rifjar hann upp. Eftir að Mette Frederiksen forsætisráðherra boðaði hertar sóttvarnaaðgerðir hafi afbókanir hrúgast inn enda útlendingum nánast ekki hleypt inn í landið. „Ég var á kvöldvakt þegar hún tilkynnti aðgerðirnar og á svipstundu urðu allar símalínur rauðglóandi og tölvupóstur með afbókunum og ósk um endurgreiðslu var óstöðvandi. Þetta var eins og í bíómynd, það hreinlega rauk úr tölvunni.“

Stuttu seinna var ákveðið að loka hótelinu á meðan veiran gengi yfir. „Talið var að allt yrði komið í samt lag eftir tvær vikur og því var starfsfólkið sent heim í þann tíma með stuðningi frá ríkinu, en lokunin var stöðugt framlengd og ég var heima í um fimm mánuði, frá miðjum mars fram í miðjan ágúst 2020. Þá mættum við aftur en lítið var að gera því fólk var ekkert að ferðast. Hótelið var síðan notað fyrir fólk í einangrun vegna Covid þar til í febrúar á þessu ári. Þá var tekin ákvörðun um að loka á ný og ekki var opnað aftur fyrr en um miðjan ágúst. Tíminn undanfarin misseri hefur því verið undarlegur en bókunum hefur nú fjölgað og mikið líf er aftur farið að færast í hótelið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert