Segja auglýsingar villandi

Bensínlaus auglýstu meðal annars rafmagnsbíla með villandi skilaboðum, samkvæmt ákvörðum …
Bensínlaus auglýstu meðal annars rafmagnsbíla með villandi skilaboðum, samkvæmt ákvörðum Neytendastofu. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Neytendastofa hefur bannað bílasölunni Bensínlaus að viðhafa viðskiptahætti sem fólust í því að auglýsa bíla á samfélagsmiðlum með stóryrtum yfirlýsingum.

Bílaumboðið Askja kvartaði til Neytendastofu vegna auglýsinga Bensínlauss en kvörtunin varðaði meðal annars yfirlýsingarnar: „Allar gerðir bíla langt undir markaðsverði og allt að 100% fjármögnun“, „grænir bílar í öllum stærðum og langt undir markaðsverði“, „tilboð dagsins – Sparaðu milljónir“ og „við létum ekki nægja að bjóða bíla milljónum undir almennu markaðsverði, við sömdum við birgja og í tilefni af Black Friday bjóðum við enn meiri afslátt.“

Ekki milljónamunur á verði

Taldi Askja engan fót vera fyrir því að Bensínlaus byði upp á bifreiðar langt undir markaðsvirði og þaðan af síður milljónum undir því. Því til stuðnings var bent á verðlagningu nokkurra bifreiða sem Askja hefði til sölu og að munurinn hefði ekki verið upp á milljónir. Askja hélt því fram að þessar auglýsingar brytu í bága við nánar tilgreind ákvæði laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu og að þær væru enn fremur til þess fallnar að „blekkja neytendur og taka til sín viðskipti frá keppinautum félagsins og þannig óhjákvæmilega valda keppinautum sem og viðskiptavinum Bensínlauss fjártjóni“.

Neytendastofa óskaði eftir gögnum frá Bensínlausum sem styddu þessar fullyrðingar þeirra en fengu þau ekki. Forsvarsmenn bílasölunnar svöruðu beiðni þess í stað með almennum hætti og sögðu að með fullyrðingunni sé verið að vísa til markaðsverðs bifreiða á óskilgreindum markaði en fyrir bifreiðar í heild sinni og félagið hafi ekki verið að bera sig saman við aðra söluaðila hér á landi.

Neytendastofa féllst ekki á þennan málatilbúnað Bensínlauss og krafðist þess að félagið hætti að viðhafa ofangreinda viðskiptahætti frá og með móttöku ákvörðunarinnar. Yrði banninu ekki fylgt mættu forsvarsmenn Bensínlauss vænta kröfu um greiðslu sekta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert