Axir glumdu, heflar sungu

Kristín og Marinó við hið fagra fley sem lofar meistarann …
Kristín og Marinó við hið fagra fley sem lofar meistarann og nafnið við hæfi. mbl.is/Ómar Garðarsson

Sjóminjasafn Þórðar Rafns hýsti einn margra viðburða Safnahelgar í Vestmannaeyjum um síðustu helgi, „Saga af manni og bát“. Þórður Rafn eða Rabbi á Dala-Rafni, skipstjóri og útgerðarmaður, hefur safnað að sér ýmiss konar sjávartengdum munum á 40 ára sjómannsferli sínum og er hvergi hættur enda eru Eyjamenn duglegir að færa honum fleiri dýrgripi. Afraksturinn og um leið útgerðasögu Vestmannaeyja má nú sjá í safni hans á Flötunum.

Þó að viðburðurinn kallaðist þessu nafni komu hér við sögu fleiri en eitt dugandi hreystimenni og mismunandi bátar sem spönnuðu allt frá árabátum til Herjólfs IV, sem lokaði sögunni ásamt Sjóminjasafninu.

Fyrstur steig á stokk Marinó Sigursteinsson pípulagningameistari sem tekur sér ýmislegt fleira fyrir hendur en pípulagnir og þá sérstaklega það sem snýr að rannsóknum á náttúru og sögu Eyjanna. Marinó rakti sögu þess þegar hann fyrir um 20 árum var á hreindýraveiðum austur á Héraði og rakst í fyrsta sinn á þennan fallega bát niðri í fjöru í Vopnafirði.

Í víking austur

Hann komst að því að báturinn væri smíðaður af þekktum bátasmið í Eyjum, Óla í Bæ (Ólafi Ástgeirssyni 1892-1966) og þar með var áhuginn vakinn. Báturinn var ekki falur á þeim tíma en menn eins og Marinó leggja ekki svo auðveldlega árar í bát. Nú í haust, 20 árum síðar, taldi Marinó að málið væri loks komið í höfn og hélt til Vopnafjarðar ásamt Þórði Rafni og Gústa í Mjölni (Ágústi Þórarinssyni) að sækja bátinn.

För þeirra félaga landleiðina austur var nokkur svaðilför enda veður oft válynd á þessum árstíma bæði til sjós og lands. Síðasta spölinn bar Herjólfur IV síðan þetta aldna fley aftur til heimahafnar. Báturinn er nú til sýnis og varðveislu á Sjóminjasafni Þórðar Rafns, ómetanlegur menningararfur og minning um merka skipasmíðasögu í Vestmannaeyjum.

Kristín Ástgeirsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastýra Jafnréttisstofu og alþingismaður, fór yfir sögu Óla í Bæ, afa síns, sem hafði sjómennskuna að aðalstarfi þó að hann hafi einnig smíðað um 400 báta um starfsævi sína. Fetaði hann þar í fótspor föður síns, Ástgeirs Guðmundssonar, formanns og bátasmiðs, (1858-1943) sem smíðaði um 10 mótorbáta í Eyjum og allnokkra á Stokkseyri.

Einn báta Ástgeirs er varðveittur á Borgarsögusafninu í Víkinni í Reykjavík (Farsæll eldri, 1907). Meðal báta Óla í Bæ má t.d. nefna kappróðrabátana, Hreyfil, Ólaf og Jötun, sem lengi voru notaðir á sjómannadaginn. Báturinn sem nú er hér kominn í sjóminjasafn Rabba er mögulega sá eini sem enn lifir af fjölmörgum bátum Óla. Sorgleg örlög flestra hinna hafa trúlega verið að enda uppi á Fjósakletti á þjóðhátíðarbrennu.

Axir glumdu og heflar sungu

Kristinn R., sonur Óla í Bæ, talaði frá Madrid á Spáni og minntist á myndrænan hátt föður síns sem lést þegar hann var á unglingsaldri. Pabba, sem lengstum var við smíðar í skúrnum heima á bak við Brimberg ef hann var ekki á sjó eða að veiða lunda. Axir glumdu, heflar sungu og hamrar dundu og allt ilmaði af timbri, sagi og hefilspónum að ógleymdu neftóbakinu. Smiðurinn raulaði við verk sitt og stundum féll til skjöldur eða sverð handa syninum.

Margt var við athöfnina og í lokin opinberaði Kristín Ástgeirsdóttir nafn bátsins, Óli í Bæ skal hann heita.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert