Rúmir fjórir milljarðar greiddir út

Iðnaðarmenn hafa haft nóg að gera.
Iðnaðarmenn hafa haft nóg að gera. mbl.is/Golli

Mun fleiri beiðnir um endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu hafa borist í ár en í fyrra. Sem kunnugt er var eitt af úrræðum ríkisstjórnarinnar til að bregðast við efnahagssamdrætti af völdum kórónuveirunnar að hækka endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts tímabundið úr 60% í 100%. Jafnframt var úrræðið útvíkkað og tekur það nú meðal annars til frístundahúsnæðis, mannvirkja í eigu félagasamtaka og bílaviðgerða. Samkvæmt upplýsingum frá Skattinum bárust alls 45.330 umsóknir um endurgreiðslur árið 2020. Það sem af er þessu ári hefur Skatturinn hins vegar tekið á móti 56.378 umsóknum. Búast má við því að umsóknum eigi eftir að fjölga til muna fram til áramóta en þá rennur út þetta tímabundna átak sem gjarnan gengur undir nafninu Allir vinna.

Í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins kemur fram að flestar beiðnir um endurgreiðslur koma frá einstaklingum vegna íbúðarhúsnæðis. Það sem af er ári hafa 39.904 slíkar borist en allt árið í fyrra voru þær 31.683. Nemur aukningin tæpum 26% og enn lifir rúmur mánuður af árinu. Ríflega tvöfalt fleiri endurgreiðslubeiðnir hafa borist frá sveitarfélögum í ár en í fyrra, 1.527 í ár en voru 736 allt árið í fyrra. Svipaða sögu er að segja af líknarfélögum, 301 umsókn hefur borist vegna framkvæmda og endurbóta á þeirra vegum en 164 í fyrra.

Miklar undirtektir voru í fyrra þegar bílaviðgerðir voru færðar undir Allir vinna-átakið. Þá bárust 12.747 umsóknir vegna vinnu við bílaviðgerðir. Þeim hefur fjölgað umtalsvert milli ára og það sem af er ári hafa 14.646 umsóknir borist. Nemur aukningin 15%.

Umsóknir bíða afgreiðslu

Sökum mikillar fjölgunar umsókna hefur skatturinn ekki enn náð að afgreiða þær allar. Í svari skattsins segir að „nokkur fjöldi“ endurgreiðslubeiðna bíði afgreiðslu. Það sem af er ári hafa 4,6 milljarðar verið greiddir út í endurgreiðslur, þar af 4,2 milljarðar vegna íbúðarhúsnæðis. Allt árið 2020 var 9,1 milljarður greiddur út, þar af 7,5 milljarðar vegna íbúðarhúsnæðis.

Rétt er að taka fram að í samantektinni eru ekki teknar með endurgreiðslur til byggingaraðila sem byggja íbúðarhúsnæði í atvinnuskyni og eiga rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna á byggingarstað.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »