Geðendurhæfingardeildin á Kleppi í sóttkví

Geðendurhæfingardeildin á Kleppi er komin í sóttkví. Þar er lokað fyrir innlagnir á meðan smitrakning fer fram í kringum sjúkling sem greindist með kórónuveiruna í gær við reglubundna skimun.

Þeir starfsmenn sem hafa komið á deildina í einhverjum erindagjörðum frá því á föstudag og hafa ekki fengið sent strikamerki fyrir sýnatöku eru beðnir um að hafa samband við rakningarteymi spítalans á netfangið rakning@landspitali.is, að því er segir í tilkynningu

Átta sjúklingar eru í sóttkví en þeir skiluðu allir neikvæðum sýnum í gær. Í dag fara fram víðtækar skimanir hjá starfsmönnum.

22 liggja inni vegna Covid-19

Alls liggja 22 á Landspítala vegna Covid-19, þar af eru 17 í einangrun. Í gær lögðust þrír inn eftir skoðun á Covid-göngudeild og einn inniliggjandi sjúklingur greindist í reglubundinni skimun.

13 eru á smitsjúkdómadeild og þrír á gjörgæslu, tveir þeirra í öndunarvél, að því er segir í tilkynningunni.

1.729 eru í eftirliti, þar af 560 börn, 82 eru gulir, enginn rauður.

54 starfsmenn eru frá vinnu vegna einangrunar (27) og sóttkvíar (27). Þá er 131 starfsmaður í vinnusóttkví.

mbl.is
Loka