Delta enn aðal vandræðagemsinn

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kórónuveirufaraldurinn virðist vera á hægri niðurleið en sóttvarnalæknir myndi vilja sjá hann fara hraðar niður. Enn er það Delta-afbrigði veirunnar sem skapar mest vandræði hérlendis. Sóttvarnalæknir segir að engar áreiðanlegar upplýsingar séu til um það hvort Ómíkron-afbrigði veirunnar sé meira smitandi eða valdi öðruvísi veikindum en fyrri afbrigði.

126 greindust smitaðir innanlands í gær.

„Þó þetta fari aðeins upp og niður þá er þetta að mjakast hægt niður. Það væri gott að fá þetta aðeins hraðar niður, ég neita því ekki,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.

Þrír eru smitaðir af Ómíkron-afbrigðinu hérlendis og þá er grunur um fjögur slík smit til viðbótar. Einn hinna smituðu er á spítala. Spurður hvort farið sé í einhverja harðari einangrun hjá þeim sem greinast með Ómíkron segir Þórólfur:

„Við höfum notað sömu nálgun á þetta afbrigði og önnur. Það er svolítið mismunandi eftir löndum hvaða áherslur menn leggja á það en við höfum ákveðið að vera ekki með neina nýja nálgun á þessu tímapunkti,“ segir Þórólfur.

„Það kemur í ljós“ segir Þórólfur um aðgerðir

Óvíst er hversu vel hraðpróf ná að greina Ómíkron-afbrigði kórónuveirunnar.

„Það er verið að skoða það erlendis og svo erum við líka að skoða það hér að fá hraðpróf frá þessu fólki til þess að fá tilfinningu fyrir því hvernig hraðprófin reynast en það er ekkert hægt að fullyrða um það með svona fáum tilvikum eins og við höfum séð.“

Þórólfur undirbýr nú minnisblað um áframhaldandi aðgerðir sem hann mun skila til heilbrigðisráðherra.  

Mega landsmenn gera ráð fyrir tiltölulega óbreyttum aðgerðum?

„Það kemur í ljós,“ segir Þórólfur.

Þórólfur segir erfitt að skera úr um það hvort faraldurinn muni vaxa hérlendis eins og hann hefur gert víða erlendis, til dæmis í Danmörku og Þýskalandi.

„Þar sem menn eru að grípa til harðra aðgerða. Ég held að við getum þokkalega vel við unað hvernig þróunin er hjá okkur á meðan þetta heldur svona áfram og þessar samfélagslegu aðgerðir sem eru í gangi eru ekkert íþyngjandi í heildina. Ég veit að það eru margir sem eru ósammála mér í því, sérstaklega þeir sem fyrir þeim verða. En þegar við skoðum hvað aðrir eru að gera þá erum við ekki í verstu málunum hvað það varðar,“ segir Þórólfur.

Verulega góð vernd með þriðja skammti

Hann bendir á að bólusetningar hafi hjálpað til við að koma í veg fyrir smit á milli fólks, sérstaklega örvunarbólusetningar, samkvæmt útreikningum Thors Aspelunds og hans teymis hjá Háskóla Íslands.

„Það kom í ljós að verndin af þriðja skammti er 90% betri en af skammti tvö,“ segir Þórólfur. „Þess vegna eiga allir að fara í örvunarbólusetningu. Svo verður bara að koma í ljós hvað gerist með þetta nýja afbrigði og það hvernig bóluefnin virka. Við erum núna fyrst og fremst að eiga við Delta-afbrigðið, það er að skapa okkur mest vandræði, bæði hér innanlands og hér á spítalanum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert