Þingforseti sagður of kröftugur á bjöllunni

„Það varðar bjöllugang herra forseta og forseta almennt hérna í dag. Hann er dálítið hávær,“ sagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, í umræðum um fundarstjórn forseta á Alþingi í gærkvöldi.

Björn ræddi málið rétt fyrir klukkan hálf ellefu í gærkvöldi en þingfundur hófst hálf ellefu í gærmorgun.

Hann sagði að á síðasta kjörtímabili hefðu þingmenn fengið ábendingar um að þegar forseti skelli harkalega í bjölluna heyrist það mjög vel í útsendingu á vef þingsins.

„Það truflar þingmenn alveg jafn mikið og lítið hversu hávært það er hérna en það truflar útsendinguna víst alveg gríðarlega mikið. Ég vil bara biðja virðulegan forseta að taka tillit til þess, takk,“ sagði Björn Leví.

Nokkur þörf á að nota bjölluna

Birgir Ármannsson þingforseti sagði að það hefði verið nokkur þörf á því að nota bjölluna við umræður í gær vegna þess að þingmenn hefðu almennt ekki virt ræðutíma í andsvörum.

„Hvað varðar kraftinn þá er forseti alveg reiðubúinn að skoða ábendinguna og athuga hvernig hægt er að gera það þannig að bjölluhljómurinn sé ekki óbærilegur fyrir þá sem á hlýða,“ sagði Birgir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert