„Hittum á ákveðna galdrastund í hjólreiðum“

Cyclot­hon-hjól­reiðakeppn­in gekk áður und­ir nafn­inu WOW-cyclot­hon.
Cyclot­hon-hjól­reiðakeppn­in gekk áður und­ir nafn­inu WOW-cyclot­hon. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höfum metið þetta þannig að þetta hefur átt sinn lífstíma,“ segir Magnús Ragnarsson, framkvæmdarstjóri sölu hjá Símanum, í samtali við mbl.is um ákvörðun skipuleggjenda Cyclot­hon að hætta að halda þessa stærstu hjólreiðakeppni Íslands.

Spurður hvort það komi til greina að einhverjir aðrir taki við keppninni segir Magnús það vel vera, „svo getur líka verið að nýkeppni verði stofnuð.“ 

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri hjá Símanum.
Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri hjá Símanum. mbl.is/​Hari

Cyclot­hon-hjól­reiðakeppn­in gekk áður und­ir nafn­inu WOW-cyclot­hon, þegar hið fallna flug­fé­lag styrkti keppn­ina, og síðar Sím­inn-cyclot­hon. 

Aldrei alvarleg slys

Magnús segir skipuleggjendur keppninnar telja sig vera lánsama vegna hversu fá slys hafa orðið á þeim tíu árum sem keppnin var haldin. 

„Það er mikil slysahætta í þessari keppni, það er ekki hægt að horfa framhjá því. Við vorum ótrúlega lánsamir að það gerðist aldrei neitt. Það var náttúrulega fullt af byltum og viðbeinsbrotum og slíku en það er bara hluti af sportinu.“ 

Hann nefnir að keppnin hafi verið haldin þegar hjólreiðar voru gífurlega vinsælar. „Við hittum á ákveðna galdrastund í hjólreiðum og þetta er hugmynd sem lifði frábæru lífi,“ segir Magnús en keppendur í Cyclot­hon hjóluðu hring­inn í kring­um landið til styrkt­ar góðu mál­efni.

Keppendur hjóluðu í kringum landið.
Keppendur hjóluðu í kringum landið. Ljósmynd/Þorgeir Baldursson

Ýmsir þættir sem leiddu til ákvarðaninar

Magnús segir að ekki sé um að ræða vandræði með kostenda en hann segir að heimsfaraldurinn hafi spilað inn í ákvörðunina. „Á þessu ári var keppnin mjög lítil þar sem það var ekki þessi vinnustaðar stemning sem þarf að vera til staðar.“

Þá segir hann að ákvörðun hjólreiðasambandsins að tímasetja tvö stór hjólreiðamót í kringum vikuna sem keppnin var haldin hafi heldur ekki hjálpað til en Cyclothon hefur alltaf verið haldið í kringum Jónsmessu. „Það var síðasta kornið sem fyllti mælinn.“

Hann segir að lokum að skipuleggjendur keppninnar hafi fengið mikið af fallegum kveðjum og þakkarorðum í gær eftir að ákvörðunin var kynnt.

mbl.is