Sprengja sprakk í útilaug Salalaugar í gærkvöldi

Engin slys urðu á fólki en gestum og starfsfólki var …
Engin slys urðu á fólki en gestum og starfsfólki var mjög brugðið. Ljósmynd/Kópavogsbær

Rétt fyrir klukkan níu í gærkvöldi sprakk einhvers konar sprengja í útilaug Salalaugar í Kópavogi. Ekki liggur fyrir hvort um kínverja, púðurkerlingu eða heimatilbúna sprengju var að ræða. Þetta staðfestir Guðmundur Halldórsson, forstöðumaður Salalaugar í samtali við mbl.is. Engin slys urðu á fólki en gestum og starfsfólki sundlaugarinnar var eðlilega mjög brugðið.

„Við vitum ekkert hverskonar sprengja þetta var, hvort þetta var kínverji eða púðurkerling, en það er rétt að það var eitthvað sem kom yfir girðinguna og sprakk. Ég þori ekki að segja hvort þetta var heimagerð sprengja eða hvort það var ætlunin að valda skaða eða hvort þetta var prakkarastrik. Við erum bara að skoða þetta,“ segir Guðmundur.

Hann segir það í raun óljóst hvort sprengju hafi viljandi verið hent yfir í garð sundlaugarinnar eða hvort einhver hafi verið að sprengja plastflösku fyrir utan sundlaugargarðinn og hluti af henni hafi skotist yfir girðinguna.

Málið skoðað með skólastjóra og lögreglu

„Við vitum bara að það kom einhvers konar flugeldi eða einhvers konar sprengja yfir til okkar sem sprakk í vatni en slasaði engan. En starfsmönnum og gestum brá mjög mikið og við erum að reyna að komast til botns í því,“ segir Guðmundur og ítrekar að hann geti ekki fullyrt að einhver hafi kastað sprengjunni yfir.

„Það eru einhverjir sem segja að þetta hafi verið heimatilbúið og einhverjir sem segja að þetta hafi verið púðurkerling. Ég er með lögregluna á annarri línunni og skólastjórann í Salaskóla á hinni línunni og við erum að reyna að finna myndskeið og skoða þetta.“

Að sögn Guðmundar eru öryggismyndavélar á svæðinu og gera má ráð fyrir að hægt sé að notast við efni úr þeim til að átta sig á því hvað gerðist.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert