Hefja skólastarf að nýju eftir smitin

Skólastarf í Hlíðaskóla lá niðri í tvo daga vegna smita.
Skólastarf í Hlíðaskóla lá niðri í tvo daga vegna smita. mbl.is/Árni Sæberg

Skólastarf í Hlíðaskóla hófst á ný í morgun eftir að hafa legið niðri bæði mánudag og þriðjudag í kjölfar þess að upp kom fjöldi Covid-smita í skólanum. Þetta staðfestir Aðalheiður Bragadóttir aðstoðarskólastjóri.

Á annan tug smita höfðu komið upp á mjög stuttum tíma þegar ákvörðun var tekin um að loka skólanum í samráði við almannavarnir. Í tilkynningu á heimasíðu skólans kom fram að skima þyrfti alla nemendur áður en þeir gætu mætt aftur í skólann.

Var þá nóg fyrir flesta að fara í hraðpróf en þeir sem þurftu að sæta sóttkví urðu að fara í PCR-próf.

Fleiri greindust um helgina

Að sögn Aðalheiðar voru þó nokkur smit sem bættust í hópinn um helgina en hún stóð þó ekki klár á því hver nákvæmur fjöldi hefði verið. Spurð hvort ekki hefði þótt efni til að hafa lokað lengur, segir Aðalheiður að skólayfirvöld séu bjartsýn á að þeim hafi tekist að hefta útbreiðslu smitanna.

Komu aðallega upp smit í 1. til 6. bekk og voru þau aðallega að berast milli nemenda.

Á næstu dögum verður því gripið til ráðstafana þar sem að reynt verður að koma í veg fyrir mikinn samgang milli bekkja. Verða nemendur því fyrst og fremst í sinni heimastofu og munu kennararnir flakka á milli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert