Kom slasaðri branduglu til bjargar

Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Myndin tengist fréttinni ekki beint. Ljósmynd/Ómar Óskarsson

Árvökull vegfarandi kom slasaðri branduglu til bjargar í síðustu viku, að því er greint frá á Facebooksíðu Dýraþjónustu Reykjavíkur.

Hrafnar voru farnir að kroppa í ugluna

Vegfarandinn hafði verið á göngu undir Eyjafjöllum þegar hann kom auga á ugluna sem hafði fest sig í girðingu. Þá hafi hrafnar verið farnir að kroppa í ugluna sem hlaut við það sár á bæði vængi og á fæti.

Farið var með ugluna í Dýraþjónustu Reykjavíkur þar sem hún fékk að ná áttum áður en farið var með hana til dýralæknis í heilsufarsskoðun.

„Uglan er óbrotin sem er mjög gott því vængbrotnir fuglar eiga litla möguleika á að ná fullum bata og þar með bjarga sér úti í náttúrunni,“ segir í Facebook-færslu Dýraþjónustu Reykjavíkur.

Uglunni er nú haldið innandyra meðan hún er í verkja- og sýklalyfjameðferð og henni leyft að safna kröftum.

Þá er vonast til þess að hægt verði að setja hana í útibúr í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum þar sem fylgst yrði með bata hennar og henni svo vonandi sleppt aftur á sínar heimaslóðir í framhaldinu.

mbl.is