Fundað um framtíð sýnatökunnar

Frá röðinni í sýnatöku í gær.
Frá röðinni í sýnatöku í gær. mbl.is//Sigurður Bogi

„Þetta fór svolítið brösuglega af stað hjá okkur, mannfall hjá okkur eins og öðrum. Margir annaðhvort í sóttkví eða smitaðir þannig að það fór svolítill tími í það að reyna að fá varafólk inn,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, um hvernig skimun fór fram í gær á öðrum degi jóla.

„Það gerist hjá okkur líkt og í öllu samfélaginu. Okkar fólk veikist jafn mikið. Heilbrigðiskerfið er viðkvæmt fyrir því.“ Um 4.700 manns voru skráðir í sýnatöku í gær, þar af 3.000 í einkennasýnatöku.

Þolið í botni á Suðurlandsbraut

„Þolið á Suðurlandsbrautinni er alveg í botni. Við náum ekkert að skima fleiri þar,“ segir Ragnheiður og bætir við að 3-5 þúsund manns á einum degi sé mikið fyrir Suðurlandsbrautina, hvað þá 8-10 þúsund líkt og var síðustu daga fyrir jól.

„Það er bara of mikið fyrir þessa staðsetningu. En nú ættu hraðprófin að minnka, það er ekki jafn mikið af viðburðum og slíkt, en á móti kemur að ef Ómíkron er í þessum veldisvexti verður hugsanlega meira um PCR-próf.

Þá þurfum við svolítið að skoða, ef við ætlum að halda áfram þessum miklu sýnatökum, hvernig við tæklum það.“

– Hefur eitthvað verið rætt um að færa skimunina um set?

„Já, við ætlum að taka svolítið stöðuna á því og endurskoða þetta; hvernig þetta verður næstu daga, í hvað stefnir og hvernig við getum best brugðist við því.“

Spurð hvort komi til greina að færa skimunina í Laugardalshöll þar sem bólusetning hefur farið fram svarar Ragnheiður:

„Ég hugsa að við myndum kannski ekki endilega velja Laugardalshöll heldur aðra staði sem við erum með í sigti,“ og bætir við að þau muni taka stöðuna í dag. Hugsanlega komi til greina að bæta við fleiri sýnatökustöðum eða færa hraðprófin annað. „Þá þyrftum við líka að bæta verulega í mannskap því við höfum ekki mannskap nema til að sinna þessum fjölda sem verið hefur.“

Við erum með á hverjum degi 20-30 manns að skima og það er svipað og í bólusetningunni, þannig að það er mikill mannskapur sem fer í þetta. Við þurfum svolítið að leggjast yfir þetta [í dag], í samráði við sóttvarnalækni. Ef hann leggur áherslu á að halda uppi fullum sýnatökum þá verðum við að reyna að bregðast við því með einhverjum hætti.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »