Snjó kyngdi niður á Akureyri og bílar hurfu í fönn

Þegar Akureyringar vöknuðu við snæviþakta jörð í gærmorgun, þá var …
Þegar Akureyringar vöknuðu við snæviþakta jörð í gærmorgun, þá var snjómoksturinn þegar hafinn. mbl.is/Margrét Þóra

Snjó kyngdi niður í fyrrinótt á Akureyri, sem varð til þess að dagurinn byrjaði snemma, klukkan fjögur, hjá Guðna Þóroddssyni, snjómokstursmanni á Akureyri.

„Ég hef unnið við þetta síðan '83 og hef séð miklu meira en þetta. Ég er ekki að segja að þetta sé lítið, þetta er með því meira á svona stuttum tíma,“ segir Guðni.

Að sögn Guðna eru tuttugu snjómokstursvélar kallaðar út þegar mest snjóar, en nú hafi þurft að kalla út tíu aukavélar.

Spurður hvort ökumenn hafi mikið verið að festast í gær svarar Guðni því neitandi en segir að þó séu alltaf nokkrir óheppnir sem lenda utan vegar, sérstaklega minni bílar.

„Það er ekki hált, það er bara leiðinlegt færi. Þetta gerist sjálfkrafa eftir svona hret. Ég held að það hafi allir farið upp Gilið í morgun þegar búið var að moka.“

Að sögn Guðna er fólk mistillitssamt í garð snjómokstursvéla.

„Sumir eru mjög pirraðir ef þeir lenda á eftir okkur en aðrir sýna þessu skilning og eru tillitssamir.“

Guðni segir veturinn í ár hafa verið þægilegan fram að þessu, sérstaklega miðað við síðustu tvo vetur þar sem snjóaði óhemjumikið. „Veturinn er búinn að vera fínn þangað til núna. Þetta er í fyrsta skipti sem það kemur alvöruhret.“ 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »