Líklegt að Delta-afbrigðið hverfi á næstu vikum

Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómum á LSH.
Magnús Gottfreðsson, sérfræðingur í smitsjúkdómum á LSH. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Magnús Gottfreðsson, pró­fess­or í smit­sjúk­dóm­um og yf­ir­lækn­ir á Land­spít­ala, telur það ekki ólíklega þróun að Ómíkron-afbrigðið komi til með að taka alveg yfir hér á landi og að Delta-afbrigðið hverfi. Hallast hann að því að það muni raungerast síðar í þessum mánuði.

Hann segir koma í ljós á næstu dögum þegar meiri regla er komin á sýnatökur hver raunveruleg smitstaða í samfélaginu sé.

„Það hafa verið sveiflur í þessum greiningum. Nú erum við að koma úr hátíðarhaldi jóla og áramóta, og lífið er aftur að komast í sinn vanagang. Það þarf alltaf nokkra daga til þess að sjá hvernig þessar tölur raðast upp, en það vekur áhyggjur að sjá svo hátt hlutfall jákvæðra sýna“ segir Magnús og bætir við að ekki sé ólíklegt að á næstu dögum muni innlögnum á spítala vegna Covid-19 fjölga hægt og bítandi.

„Ég held að það muni reyna mjög mikið á spítalann. Þetta er farið að bitna, eins og allir sjá, á öðrum skjólstæðingum heilbrigðiskerfisins vegna þess að það er verið að fresta og slá af allskonar aðra þjónustu. Ég að held að næstu vikur muni verða okkur mjög erfiðar.

Ekki hægt að fullyrða að Ómíkron valdi vægari einkennum

Í samtali við mbl.is í síðasta mánuði varaði Magnús við því horft yrði til niðurstaðna rannsóknar í Suður-Afríku sem gefið hafa til kynna að sjúkdómseinkenni af völdum Ómíkron-afbrigðisins væru vægari en af völdum Delta-afbrigðisins. Vísaði hann þá til þess að erfitt væri að bera saman aðstæður í mismunandi heimshlutum og að taka yrði mið af faraldursfræðilegu samhengi.

Spurður hvort að hægt væri að meta það sem svo að Ómíkron-afbrigðið valdi vægari einkennum meðal Íslendinga í ljósi þeirra upplýsinga sem fengist hafa síðastliðinn mánuð, segir Magnús að ekki sé hægt að slá því endanlega föstu. „En það virðist vera svipað upp á teningnum hér og annars staðar, að það séu minni veikindi sem að fylgja Ómíkron og minni hætta á alvarlegri lungnabólgu með öndunarbilun.“

Meiri smithæfni þurrkar út ávinning

Myndir þú skilgreina það sem jákvæða þróun að Ómíkron taki yfir á næstu vikum í ljósi þess að tíðni spítalainnlagna virðist lægri sökum þess samanborið við Delta?

„Það togast á þetta tvennt. Veikindin eru vægari, sem er auðvitað afar jákvætt en smithæfni er meiri. Þá verður þetta í raun og veru reikningsdæmi. Ef þú ert með mjög aukna smithæfni, töluvert mikið meiri en smithæfni Delta-afbrigðisins þá þurrkast mjög fljótlega út þessi ávinningur af minni veikindum. Aukinn fjöldi  sjúklinga vegur upp á móti og getur sett kerfið á hliðina. Þetta er í raun það sem málið snýst um.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert