Sumir aldrei skilað ársreikningi

Fyrirtæki
Fyrirtæki

Ríkisendurskoðun hefur birt á vef sínum útdrátt úr ársreikningum sjálfseignarstofnana og sjóða sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Þar kemur fram að alls bar 702 sjóðum og stofnunum að skila ársreikningi til stofnunarinnar fyrir rekstrarárið 2020. Í ársbyrjun 2022 höfðu 458 staðfestir sjóðir og stofnanir uppfyllt þessa skyldu en ársreikningar 244 sjóða og stofnana hafa ekki borist embættinu. Höfðu því rúmlega 65% ársreikninga borist rúmum sex mánuðum eftir eindaga skila.

„Þá vekur athygli að 50 virkir sjóðir hafa aldrei skilað ársreikningi til embættisins þrátt fyrir árvissar ítrekanir þar um,“ segir í frétt á vefnum.

Fram kemur að sjóðir og stofnanir með staðfesta skipulagsskrá eru misjöfn að stærð. Eignir 62 sjóða sem skiluðu ársreikningi fyrir 2020 eru undir 500 þús. kr. Þar af voru sautján sjóðir eignalausir í árslok 2020. Af 458 stofnunum og sjóðum sem skiluðu ársreikningi fyrir árið 2020 voru 222 sjóðir með tekjur á árinu. Af þeim 236 sjóðum sem ekki höfðu tekjur á árinu voru 114 sjóðir ekki með nein gjöld og af þeim voru fjórir sjóðir hvorki með tekjur né gjöld og voru að auki eignarlausir í lok árs 2020. Sá sem ber ábyrgð á sjóði eða stofnun skal ekki síðar en 30. júní ár hvert senda Ríkisendurskoðun ársreikning sjóðsins eða stofnunarinnar fyrir næstliðið ár.

Séu ekki staðin skil á þessu eða reynist reikningsskilin ófullkomin getur sýslumaður að fengnum tillögum Ríkisendurskoðunar falið lögreglu að rannsaka fjárreiður sjóðsins eða stofnunarinnar.

mbl.is