Ekki ástæða til að fara af leið temprunar

Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll.
Frá bólusetningu gegn Covid-19 í Laugardalshöll. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki er talin ástæða til að fara af leið temprunar í baráttunni við kórónuveiruna að svo stöddu, enda er staða faraldursins viðkvæm og mikið um smit í samfélaginu. Þetta gæti breyst ef ástandið versnar meira en horfur eru á.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu. Temprun felur í sér að taka skref í átt að frekari opnun en álag vegna veikinda dreifist á lengra tímabil heldur en ef sóttvarnaaðgerðum er hætt í einu vetfangi.

Fram kemur að í ágúst síðastliðnum hafi verið ákveðið að fara leið temprunar. Í ljósi breyttrar stöðu hafi verið til skoðunar hvort tilefni sé til að endurskoða þá nálgun.

Sjö samráðsfundir haldnir

Ráðherranefnd um samræmingu mála hélt sjö samráðsfundi með hagsmunaaðilum í lok desember og byrjun janúar. Þar var rætt um stöðu faraldursins og heilbrigðiskerfisins, sóttvarnir og mannréttindi, sóttvarnaaðgerðir og bólusetningar, velferðarkerfið, efnahagsmál og atvinnulíf og vinnumarkaðsmál, að því er segir í tilkynningunni.

Á meðal gesta á fundunum voru: landlæknir, sóttvarnalæknir, yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra, fulltrúar heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala, fulltrúar frá heilbrigðistæknifyrirtækjum, lagadeild Háskóla Íslands, lagaprófessor við Háskólann í Bergen, umboðsmaður barna, fulltrúar frá velferðarsviði Reykjavíkur, Geðhjálp, ÖBÍ, Þroskahjálp, Seðlabankanum, greiningardeildum banka, Vinnumálastofnun, ASÍ, SA, BSRB, BHM, Kennarasambandi Íslands og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

„Ríkisstjórnin leggur áfram mikla áherslu á bólusetningar, ekki síst barna. Næstu vikurnar verður mikilvægt að standa við bakið á heilbrigðiskerfinu svo það ráði við álagið.“

mbl.is