Kennarasambandið gagnrýnir jafnréttissýn Katrínar

Samsett mynd

Stjórn Kennarasambands Íslands gerir athugasemdir við þann málflutning ráðherra að skólum þurfi að halda opnum til að konur komist í vinnuna. Þau segja stjórnvöld viðhald einu stærsta kerfislæga ójafnrétti íslensks samfélags.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kennarasambandinu.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að það væri jafnréttismál að halda skólum opnum eftir ríkisstjórnarfund í dag.

„Við tókum þá ákvörðun, þá prinsipp-ákvörðun, í upphafi þessa faraldurs að við ætluðum að reyna að viðhalda skólastarfi eins og unnt væri til þess að tryggja það að börnin í landinu njóti menntunar og tryggja ákveðna rútínu fyrir börn. Sú aðgerð var líka mjög mikilvæg jafnréttisaðgerð. Það skiptir máli ef skólum er lokað, þá vitum við auðvitað að það er mun algengara að konurnar séu heima með börnin. Við höfum bara staðið með þessu prinsippi.“

Viðhaldi láglaunastefnu

Í tilkynningunni frá Kennarasambandinu segja þau stjórnvöld vera hæg heimatökin að byrja á eigin ranni.

„Ef stjórnvöldum er jafn annt um jafnrétti og þau segja eru þeim hæg heimatökin að byrja á eigin ranni - enda viðhalda þau sjálf einu stærsta, kerfislæga ójafnrétti íslensks samfélags: láglaunastefnu kvennastétta í opinberum störfum.“

Vilja pólitíkina burt

Þá gagnrýnir Kennarasambandið einnig að ákvörðun stjórnvalda um óbreyttar sóttvarnaraðgerðir í skólum hafi ekki verið tekin í samráði við skólasamfélagið á daglegum samráðsfundum sem það á með menntamálaráðherra. 

„Sú ákvörðun stjórnvalda í dag að halda skólastarfi óbreyttu var ekki rædd á fyrrnefndum samráðsvettvangi aðila þótt skilja mætti orð heilbrigðisráðherra sem svo að um samráð hafi verið að ræða. Sú ákvörðun var tekin af ríkisstjórninni og er á ábyrgð hennar.

Raunveruleikinn er sá að þegar hafa orðið miklar raskanir á skólastarfi frá áramótum og það verður afar flókið að standa vörð um menntun í landinu á næstu dögum og vikum. Leiðin áfram hlýtur að byggja á því sem hingað til hefur virkað: Að hlusta á og treysta fagfólki. Við höfum dæmi víðar en úr skólastarfi um það að stjórnvöldum fer þá fyrst að skrika fótur þegar þau taka eigin pólitísku sannfæringu fram yfir ráð þeirra sem best til þekkja.“

mbl.is

Bloggað um fréttina