Þjófstörtuðu Hólmfríði viljandi

Björn Hlynur á og rekur sportknæpuna Ölver meðfram starfi sínu …
Björn Hlynur á og rekur sportknæpuna Ölver meðfram starfi sínu að leiklist. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sjónvarpsþættirnir Verbúðin eru að vonum veisla fyrir fólk með staðreyndablæti sem sökkt hefur sér niður í efnið í leit að tímaskekkjum og villum. Þetta lag var ekki komið út þarna, svona bílnúmer voru ekki til, ekki þessi íþróttagalli og þar fram eftir götunum.

Björn Hlynur Haraldsson, einn höfunda þáttanna, hlær þegar þetta berst í tal. „Einhverjum brá þegar lagið Hólmfríður Júlíusdóttir kom í þætti sem gerist árið 1986 en það kom ekki út fyrr en tveimur árum síðar. Ég var búinn að segja Birni Jörundi að við hefðum komist yfir demó frá Nýdönsk og stend við þá söguskýringu,“ segir hann sposkur. „Annars er þetta bara skemmtilegt og þér að segja höfum við gert aðeins í þessu, vísvitandi. Til að stríða fólki. Það á til dæmis við um Hólmfríði Júlíusdóttur og bílnúmerin.“

Hann glottir.

„Í grunninn á þetta þó að halda, tímalega. Annars er það auðvitað aukaatriði, við erum bara að fjalla um þennan áratug á breiðum grunni og reyna að fanga tíðarandann. Í öllu falli má þetta staðreyndagrúsk ekki skyggja á aðalsöguna.“

Eins og dæmin sanna þarf lítið til að koma íslenskum sjónvarpsáhorfendum úr jafnvægi; skemmst er að minnast þess þegar maður fór inn í hús á Siglufirði í Ófærð en kom út á Seyðisfirði. Þjóðin engdist sundur og saman af kvölum. En öllum stóð á sama í útlöndum. „Þetta er lítið samfélag, þar sem allir þekkja alla og allir þekkja hverja einustu þúfu á landinu. Það er engin ástæða til að taka svona athugasemdir nærri sér, þær eru bara skemmtilegar og skapa umræðu og umtal.“

Nostalgían mjög sterk

Það er gömul saga og ný að fortíðarþráin sé rík í okkur Íslendingum og Hlynur og Vesturportsfólkið hafa fundið vel fyrir því nú. „Nostalgían er mjög sterk hérna, ekki síst gagnvart þessum tiltekna áratug, áttunni. Það urðu líka svo miklar breytingar á þjóðfélaginu á þessum tíma, á svo mörgum sviðum. Það á ekki síst við um dægurmenninguna enda jókst aðgengi að kvikmyndum með vídeóbyltingunni og tónlist gegnum tónlistarrásir á borð við Rás 2 og Bylgjuna. Svo var bjórinn leyfður og þar fram eftir götunum.“

Björn Hlynur Haraldsson og Guðjón Davíð Karlsson eru vaskir sjómenn …
Björn Hlynur Haraldsson og Guðjón Davíð Karlsson eru vaskir sjómenn í Verbúðinni.


Hann rifjar upp að hafa komið í Plötubúðina á Laugaveginum á níunda áratugnum og pantað plötur upp úr katalóg sem síðan voru fluttar inn til landsins. Veruleiki sem er íslenskum ungmennum mjög framandi í dag. Þau ýta bara á einn takka á Spotify eða öðrum slíkum veitum. „Það er ótrúlega gaman að hafa upplifað þessa tíma. Ég man líka þegar bekkjarfélagi minn rétti mér bleika kassettu í tíma í fyrsta bekk í MS. Á henni stóð Nevermind, Nirvana.“

Hann brosir út að eyrum.

„Þetta á líka við um fótboltann. Í Þróttarheimilinu voru til gamlar vídeóspólur með Pelé, frá nítján hundruð fimmtíu og eitthvað, en svo var maður allt í einu kominn með Maradona og þessa kappa í beinni útsendingu í sjónvarpinu. Þetta voru þvílík vatnaskil.“

Talandi um myndefni þá er af ýmsu að taka í safni RÚV og Stöðvar 2 og það færðu handritshöfundar Verbúðarinnar sér í nyt. Eins og áhorfendur hafa tekið eftir eru ýmsar beinar tilvísanir í þáttunum, eins og í Susan sem baðaði sig á samkomum, Steingrím Hermannsson á sundskýlunni og við vélsögina og svo framvegis. Von er á meira slíku hnossgæti en Hlynur upplýsir til dæmis að Björgvin Franz Gíslason eigi eftir að bregða sér í gervi manns sem hvert mannsbarn þekkti og naut mikillar lýðhylli á þessum tíma.

Nánar er rætt við Björn Hlyn í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert