Fékk ábendingu um að hætta gæti verið á ferð

Guðlaugur Þór segir að um sé að ræða fyrirbyggjandi aðgerðir.
Guðlaugur Þór segir að um sé að ræða fyrirbyggjandi aðgerðir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta bréf sýnir í raun ekkert annað en það að við erum með hendur á stýri og vorum ekki að bíða eftir því að eitthvað myndi gerast. Ég fékk ábendingu um að þarna gæti verið hætta á ferð og þess vegna brugðumst við við,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, um bréf sem Orkustofnun sendi á raforkuframleiðendur í landinu á þriðjudag.

Þar var kallað eftir upplýsingum um framleiðslugetu í vinnslukerfum þeirra og hvort þeir geti brugðist við yfirvofandi orkuskorti, en Morgunblaðið greindi frá málinu í dag. Það er gert „svo komast megi hjá að rafkyntar hitaveitur á köldum svæðum þurfi að nota olíu í stað umhverfisvænnar raforku,“ eins og það er orðað í bréfinu sem Morgunblaðið hefur undir höndum.

Óásættanlegt að skerða þurfi rafmagn

Guðlaugur segir í samtali við mbl.is það vera nokkuð sterkt til orða tekið að segja orkuskort vera yfirvofandi.

„Við funduðum út af þessu því mér bárust ábendingar um þetta mál, að það væri möguleiki á því að skerða þyrfti rafmagn hjá þessum litlu, en mjög mikilvægu notendur, sem eru samfélög á köldum svæðum. Það er auðvitað óásættanlegt,“ segir Guðlaugur.

„Þetta er fyrirbyggjandi aðgerð, en þetta gæti engu að síður gerst. Þetta hefur ekki gerst í langan tíma en við viljum ekki taka neina áhættu og þess vegna förum við strax í verkefnið,“ bætir hann við. Þrátt fyrir að slæm staða sé í miðlunarlónum vatnsaflsvirkjana, eigi það ekki að gerast að skerða þurfi rafmagn.

Aðspurður segist hann vilja trúa því að viðbrögð við ákalli Orkustofnunar til raforkuframleiðenda verði jákvæð.

„Já ég vil ekki trúa öðru, ég trúi ekki öðru en að allir leggist á eitt.“

Gríðarlega stórt verkefni

Hann segir ýmis brýn viðfangsefni á borði ráðuneytisins sem þurfi að leysa sem allra fyrst. Hugsað sé til skemmri og lengri tíma í þeim verkefnum sem komið hefur verið af stað nú þegar. Nefnir hann meðal annars starfshóp um gerð grænbókar um stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum, sem á að gera grein fyrir orkuþörf og stöðunni á flutningskerfi raforku. Sem og starfshóp um raforkuöryggi, sem einnig var skipaður nýlega.

Þá eru í ráðuneytinu uppi áform um að leggja fram frumvarp sem einfaldar niðurgreiðslukerfið og fjölgar með því varmadælum, sem hefur í för með sér ávinning fyrir neytendur, ríki, raforkukerfið og orkuskipti. 

„Verkefnið er gríðarlega stórt og við höfum ekki gaumgæft þetta eins og við hefðum átt að gera. Þess vegna þurfum við að ganga hratt til verks. Til dæmis með grænbókinni sem verður vonandi til þess að það verða aðgengilegar á einum stað eins góðar upplýsingar um þessi mál og hægt er. Þetta er umræða sem við verðum að taka, og þá er ég ekkert að biðja alla um að vera sammála um alla hluti, en ef hún verður málefnaleg og byggð á staðreyndum þá mun hún leiða til niðurstöðu og að við náum þannig þeim háleitu markmiðum sem við lögðum upp með.“

mbl.is