Læst úti í Mexíkó

Sannarlega eru þær blómarósir með meiru, Björg og hin sænska …
Sannarlega eru þær blómarósir með meiru, Björg og hin sænska samstarfskona hennar og framkvæmdastjóri Destinasjon Glede, Adina Broady Aasebø. Ljósmynd/Aðsend

„Ég er búin að vinna með Destinasjon Glede í fimm ár. Það er eins konar gleðibylting og sérstaklega núna í Covid þegar margir eru þunglyndir og daprir. Ég vil bara að fólk sé hamingjusamt, þá gengur lífið bara betur og vandamálin verða yfirstíganlegri ásamt því að samskipti fólks verða auðveldari og jákvæðari. Hljómar þetta eins og það komi úr munni ljósku? Það gerir það!“

Björg Þórhallsdóttir, myndlistarkona, rithöfundur, útlærður fræðingur í mósaíklist, marmaraskurði og steindum blýgluggum og í raun og sann margt fleira, hlær slíkum hrossahlátri við þennan ljóskubrandara, að erfitt er að ímynda sér að svo mörg desibel geti átt upptök sín hjá tiltölulega lágvaxinni ljóshærðri listakonu.

Björg ásamt ákaflega huggulegum foreldrum sínum, Herdísi Pálsdóttur og Þórhalli …
Björg ásamt ákaflega huggulegum foreldrum sínum, Herdísi Pálsdóttur og Þórhalli Guðmundssyni, sem voru bara í því að sækja, skutla, redda og panta sushi um helgina, en auk þess er Herdís virkur þátttakandi í gleðiverkefni dóttur sinnar. Myndin er tekin í höfuðstöðvum útgáfurisans Egmont þar sem Björg opnaði Destinasjon Glede formlega á laugardaginn. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Við erum stödd í aftursætinu í Audi-bifreið foreldra Bjargar, þeirra Þórhalls Guðmundssonar og Herdísar Pálsdóttur, sem gerir heiðarlega tilraun til að ljúka við sushi-pöntun símleiðis í framsætinu þrátt fyrir hlátrasköll dótturinnar. Förinni er heitið á aðalbrautarstöðina í Ósló að skila blaðamanni í lest og svo heim í sushi með nánasta samstarfsfólki og vinum eftir vel heppnaða opnunarathöfn nýjasta verkefnis Bjargar, fyrrnefnds Destinasjon Glede, Áfangastaðarins Gleði í beinni þýðingu.

Opnunin fór fram síðdegis á laugardag í höfuðstöðvum danska útgáfurisans Egmont í Ósló, fyrirtækis, sem gefur út ógrynni tímarita og teiknimyndasería, er eigandi norsku sjónvarpsstöðvarinnar TV 2 og að hluta vefmiðilsins Nettavisen auk þess sem kvikmynda- og sjónvarpsframleiðandinn Nordisk Film sameinaðist því árið 1992. Svo vel leist forkólfum Egmont á verkefni Bjargar, að þeir ákváðu að kaupa sig inn í það að 50 prósentum.

Ódýrara en sálfræðiaðstoð

Um hvað snýst þetta mikla gleðispil Bjargar þá eiginlega? „Þetta er heill stafrænn heimur,“ útskýrir Björg, sem býður sáluhjálp á silfurfati þeim, sem þiggja vilja, og nú þegar verkefninu er hleypt af stokkunum eru þátttakendur, eða áskrifendur, eitt þúsund talsins. „Sálfræðitími kostar 1.200 krónur, þetta kostar 400 krónur á mánuði,“ segir Björg og talar í norskum krónum. Þátttakendur sækist vitanlega eftir ólíkum hlutum, sumir eigi í vanda með ásýnd sína, aðrir efnahaginn, tengslin, séu jafnvel staddir í tilfinningalegum öngstrætum eða einfaldlega með hlutina í óreiðu. Listinn er langur.

Björg og Adina við upphaf opnunar sinnar og kynningar sem …
Björg og Adina við upphaf opnunar sinnar og kynningar sem streymt var til þátttakenda um lýðnetið vegna 20 manna samkomutakmarkana. Tuttugu manns náðu þó að hljóma eins og hundrað enda leyndist heill kór meðal áhorfenda sem söng við raust. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Til allra heilla sat blaðamaður opnunarathöfnina, þar sem Björg fór gegnum ítarlega kynningu á sköpunarverki sínu ásamt samstarfskonu sinni og framkvæmdastjóra verkefnisins, hinni sænsku Adinu (nf. Adina) Broady Aasebø, ellegar er hætt við að stirt hefði orðið um stef við að útskýra öll herlegheitin í stuttum texta, en opnunin var send út í vefstreymi til þátttakendanna, á staðnum var samkvæmt sóttvarnareglum aðeins leyfilegt rúm fyrir 20 manns, sem varð þó ekki skotaskuld úr því að hljóma eins og hundrað manns, enda heill kór meðal viðstaddra og söng í tvígang við raust.

Gleðiverkefni Bjargar skiptist í ólíka efnisþætti, eða þemu, sem sérfræðingar á viðkomandi sviði stýra, margir hverjir þjóðþekktir einstaklingar í Noregi. Má þar nefna Silje Sandmæl, hagfræðing DNB-bankans, sem slegið hefur í gegn með hagfræðiráðgjöf í sjónvarpsþætti sínum I lomma på Silje, eða Í vasa Silje, þar sem hún leiðbeinir sauðsvörtum pupulnum um ráðdeildarsemi í fjármálum og gaukar hagnýtum ráðum að áhorfendum.

Silje Sandmæl, landskunnur hagfræðingur og stjórnandi sjónvarpsþáttanna Í vasa Silje, …
Silje Sandmæl, landskunnur hagfræðingur og stjórnandi sjónvarpsþáttanna Í vasa Silje, kynnir sinn þátt í gleðireisu Bjargar þótt fatnaður hennar virðist fullkomlega án vasa. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Hinn kunni fyrrverandi frjálsíþróttameistari og nú einkaþjálfari Yngvar Andersen, eftirsóttur fyrirlesari og rithöfundur, sem enn fremur gerði garðinn frægan í heilsu- og lífsstílsþáttum norska ríkisútvarpsins NRK, Puls, og nú nýverið í þáttunum Gym med Yngvar, fjallar um líkamsrækt, æfingar og heilbrigða hreyfingu. Berit Nordstrand er læknir með ódrepandi ástríðu fyrir matargerð, hefur sent frá sér fjölda bóka á þeim vettvangi auk þess að stýra Bra Godt á TV 2 Play ásamt Klaus Sonstad, 52 matreiðsluþáttum, svo ef til vill mætti kalla Nordstrand svar Noregs við Ragnari Frey Ingvarssyni, lækninum í eldhúsinu svokallaða.

Fjölskylduráðgjafi með uppistand

Til að nefna einn sérfræðing í viðbót af öllum skaranum, sem er Björgu til fulltingis í gleðinni, er þar auðvitað nærtækast að velja hennar eigin móður, Herdísi Pálsdóttur, sem heldur betur er fleira til lista lagt en að panta sushi ofan í hina litríku dóttur sína. Herdís rekur ásamt annarri dóttur sinni, Dóru Þórhallsdóttur uppistandara, sem reyndar er einnig menntuð kennari, blaðamaður og fjölskylduráðgjafi, fyrirtækið EQ Institute, þar sem EQ-ið stendur fyrir tilfinningagreind, emosjonell intelligens á norsku.

Sjálf hefur Herdís skrifað sjö bækur og þróað meðferðarform sem kallast EQ-meðferð. Hún er sérkennslufræðingur að mennt og fjölskylduráðgjafi eins og Dóra. EQ Institute er skóli þar sem rúmlega 400 nemendur tileinka sér þá list að öðlast næmari skilning á sjálfum sér og þróa með sér tilfinningagreind til bóta samskiptum við sjálfa sig jafnt sem aðra.

Þátttakendur í Destinasjon Glede tengjast verkefninu sem fyrr segir gegnum stafræna veröld þess auk þess að fá verkefnabækur Bjargar sendar í pósti með reglulegu millibili, bækur á borð við Mine relasjoner, Mín tengsl, og Mine vaner, Mínar venjur, þar sem þátttakendur fá ýmist ákveðin verkefni hvern virkan dag vikunnar – stund er milli stríða um helgar – eða lesa stutta fræðslukafla um fyrirbæri á borð við hugleiðslu, svefn og öndunaræfingar svo eitthvað sé nefnt. Listakonan er á heimavelli við ritstörf enda höfundur 16 bóka, hefur allt í allt komið með einhverjum hætti að vinnslu tvöfalds þess fjölda og átt titla í efstu fimm sætum metsölulista þrjú ár í röð.

Hluti áhorfenda í forstofunni hjá Egmont að opnunarkynningu lokinni. Boðið …
Hluti áhorfenda í forstofunni hjá Egmont að opnunarkynningu lokinni. Boðið var upp á freyðivín Bjargar, Lykkebobler, eða Hamingjubúbblur, en Björg er reyndar með sína eigin vínlínu sem framleidd er á Spáni og seld í norskum áfengisútsölum, það var bara ekki pláss í þessu viðtali til að fara út í það mál. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Þú gerir bara það sem þú getur,“ segir Björg, við erum aftur komin í svörtu Audi-bifreiðina á götum Óslóar við aftanskæru svalan laugardag í janúar. „Ef þú nærð fimm mínútum á dag er það gott, ef þú nærð hálftíma á dag er það frábært. Þetta er í rauninni „livsmestring“,“ heldur hún áfram, skýtur inn einu og einu norsku orði, en Björg talar nær lýtalausa íslensku þrátt fyrir að hafa flutt til Noregs eins árs gömul árið 1975 og reyndar búið víða annars staðar um heiminn síðan. Með „livsmestring“ á hún við að þátttakendur í gleðileiðangrinum nái undirtökunum og stjórninni á eigin lífi gegnum fjölda smárra skrefa, enda segir kínverskt orðatiltæki fornt, að jafnvel lengsta ferðalag hefjist með einu skrefi.

Tvítyngt heimilishald

„Ég ætla að einbeita mér að Noregi fyrst og keyra þetta verkefni bara hér til að byrja með, öll yfirferðin tekur eitt ár,“ útskýrir Björg. Samstarfsfólk hennar hjá Egmont vildi mjög gjarnan fara samtímis af stað með Destinasjon Glede í Noregi, Svíþjóð og Danmörku, en leikstjórnandinn og upphafsmanneskjan, Björg sjálf, kaus að fara hægar í sakirnar, enda ærin vinna fyrir dyrum í nágrannalöndunum, þar þarf að velja nýja sérfræðinga hvers málaflokks, fulltrúa úr ranni eigin þjóðar. Byrjum á Noregi.

Sem fyrr segir flutti Björg þangað til lands árið 1975, þegar Þórhallur faðir hennar hóf nám við Bergen ingeniørhøgskole. „Foreldrar mínir voru svo ungir þarna, þau voru bara um tvítugt og við bjuggum í sumarbústað inni í skógi sem þau leigðu,“ segir Björg af fyrstu kynnum af nýju landi, en hún var ekki nema eins árs er þarna var komið sögu og man því lítið af námsárum föður síns í hinum regnvota höfuðstað Vestur-Noregs.

Björg er lærður mósaík-listamaður frá Barcelona og ber glæsilegt heimili …
Björg er lærður mósaík-listamaður frá Barcelona og ber glæsilegt heimili hennar á Ormøya í Ósló þess skýr merki með heilu mósaík-veggjunum. Björg skilur líklega vel hvernig Gerði Helgadóttur leið þegar hún var að púsla sínu glæsilega verki utan á Tollhúsið við Tryggvagötu árið 1973. Ljósmynd/Aðsend

Þær Dóra systir hennar hafi neyðst til að tileinka sér norska tungu snemma, annað hafi hreinlega ekki verið í boði. „Ég man að við vorum að reyna að tala við einhverja krakka og töluðum bara íslensku, þeir hlupu þá bara í burtu,“ rifjar Björg upp og hlær dátt. Fljótlega hafi sú skipan mála komist á í fjölskyldunni að systurnar töluðu við foreldra sína á norsku, sem hins vegar svöruðu á íslensku, svo báðum tungumálunum var sinnt til jafns, enda talar listakonan sem fyrr segir reiprennandi íslensku þrátt fyrir að hafa aðeins búið hálft ár á Íslandi eftir að hún flutti þaðan eins árs gömul, að undanskildum nokkrum sumrum hjá ættingjum á landi elds og ísa.

„Svo fluttum við til Bærum [rétt utan við Ósló] 1977 og yngsta systir okkar, hún Svava, fæddist þar 1978,“ segir Björg frá, en starf föðurins hjá gæða- og öryggisvottunarfyrirtækinu Det Norske Veritas kallaði þó á umtalsverða flutninga um heiminn. Hann hóf störf við hönnunar- og framkvæmdaeftirlit á Ekofisk-olíuvinnslusvæðinu úti fyrir Stavanger, en fljótlega lá leiðin víðar og varð hann meðal annars verkefnisstjóri Veritas hjá gasverksmiðju í Malasíu.

Þar sem konur vinna ekki

„Við fluttum til Malasíu og bjuggum þar í tvö og hálft ár, eiginlega inni í frumskógi, þetta hefur verið 1982 til '85 og ég er mjög þakklát fyrir þann tíma. Í staðinn fyrir að fara heim til Evrópu í fríum ferðuðumst við út um allan heim, til Indlands, Taílands og Ameríku,“ rifjar Björg upp.

Herdísi móður hennar var, sem konu í ríki múslima, algjörlega forboðið að sækja út á vinnumarkaðinn og þótti eðlilega súrt í broti, hvaða Íslendingi þykir enda ekki fúlt að vera settur stóllinn fyrir dyrnar í atvinnumálum? „Henni leiddist það nú dálítið og byrjaði í Jane Fonda, en hafði líka nægan tíma til að sinna okkur systrunum,“ segir Björg. Fátt er svo með öllu illt eins og þar stendur.

Skeggrætt um listina og samtíðina yfir jötu. Björg er ekki …
Skeggrætt um listina og samtíðina yfir jötu. Björg er ekki einhöm í listinni, stundar margar hliðar myndlistar og er höfundur fjölda bóka sem sumar hverjar hafa klifið efri brúnir norskra metsölulista. Ljósmynd/Aðsend

Allt þetta heimshornaflakk kynti undir áhuga Bjargar á framandi stöðum, enda hefur hún verið búsett á Balí, í Cannes, Barcelona og Mexíkó svo eitthvað sé nefnt, en til síðastnefnda landsins ferðaðist hún sem skiptinemi snemma á tíunda áratugnum á vegum AFS og sannaðist þar heldur betur hið fornkveðna, að fall er fararheill. Björg lenti þar fyrst hjá fjölskyldunni Gonzales, sem er líklega á pari við að heita Jón á Íslandi, en svo upptekið var fólk þetta af keppnisferli dóttur sinnar í fegurðarsamkeppnum að einn daginn kom Íslendingurinn ungi að tómum kofunum í bókstaflegri merkingu.

„Ég kom heim úr skólanum og þá var húsið bara læst. Þau voru þá bara farin með dótturinni til Mexíkóborgar,“ segir Björg af þessari gestrisnu skiptinemafjölskyldu í bænum Zacatecas. „Ég stóð þarna eins og illa gerður hlutur og þekkti engan, þarna voru engir GSM-símar komnir og ég gat ekki haft samband við neinn,“ segir Björg af ögurstundu íslensks skiptinema í Mexíkó árið 1992.

Voða „næs“ indíánar

Þegar neyðin er stærst er hjálpin þó næst, stundum alla vega. Í strætisvagni gaf stúlka sig að Björgu og spurði hana hvort hún talaði ensku, sem stúlku þessa fýsti ákaft að læra. Tóku þær Björg tal saman og áður en stúlkan fór úr vagninum benti hún Íslendingnum á hvar hún ættti heima. „Ég vissi ekkert hvert ég átti að fara svo að lokum tók ég strætisvagninn aftur á sömu stoppistöð og fór og bankaði upp á hjá henni og sagði henni hvernig komið var fyrir mér,“ segir Björg af förum sínum, sem voru langt í frá sléttar.

Varla finnst sá kimi heimsins þar sem Coca-Cola hefur ekki …
Varla finnst sá kimi heimsins þar sem Coca-Cola hefur ekki haldið innreið sína, heimili í iðrum Mexíkó eru þar engin undantekning en líklega er það eitthvað annað sem ungur skiptinemi þiggur í glas úr leirkrukku árið 1992, fyrir réttum 30 árum. Ljósmynd/Aðsend

„Þú getur bara komið og búið hjá okkur,“ sagði nýja vinkonan formálalaust og bauð Björgu þegar í stað inn á heimili fátækrar fjölskyldu sinnar. „Þau voru ekkert voðalega rík, en þau voru með mjög stór hjörtu og ég var hjá þeim í nokkrar vikur. Svo fór ég bara að ferðast um Mexíkó,“ segir Björg, sem þarna var 17 ára gömul og ekkert á þeim buxunum að tilkynna skiptinemasamtökunum AFS um stöðu mála. Þau vissu ekki betur en að hún væri í góðu yfirlæti hjá fjölskyldu fegurðardrottningarinnar. „Svo hringdi ég loksins í mömmu og pabba eftir tvo eða þrjá mánuði, þarna var svo dýrt að hringja að maður hringdi bara á jólum og afmælum,“ segir Björg og hlær.

Ekki leist Þórhalli föður hennar á blikuna og hafði þegar samband við AFS þar sem skjótt var brugðist við og Björgu komið í vist í indíánaþorpi, hjá Zacatecos-indíánunum í Juchitán, hlýtur slík dvöl ekki að vera draumur hvers skiptinema? „Þeir voru voðalega „næs“,“ hermir Björg af indíánum þessum og kveður dvölina í Juchitán hafa verið magnaða.

„Maturinn og hvernig þeir lifðu og bara allt var svo ótrúlega ólíkt því sem maður átti að venjast. Fjölskyldan, sem ég lenti hjá, var vel stæð og bjó í steinhúsi, reyndar gluggalausu. Á veggjunum voru krókar, sem hengirúm voru fest á og þar sváfum við vegna þess að þarna var svo mikið af skordýrum og slöngum, en þau komust ekki upp í hengirúmin,“ segir Björg af þessum hugvitsamlegu vistarverum Zacatecos-indíánanna og blaðamaður gleðst í hjarta sínu yfir að vera búsettur í myrkri og kulda Skandinavíu.

Appelsínutré á skólalóðinni

Faðirinn í indíánafjölskyldu Bjargar var kennari, en móðirin á heimilinu seldi skó á götumarkaði. Ekki gat Björg hugsað sér, frekar en kvenskörungar aðrir, að vera einhver hornkerling á vinnumarkaði mexíkóskra frumbyggja og fór því að kenna ensku í barnaskólanum á staðnum. „Þetta var skóli fyrir fátæka krakka og mér leist mun betur á þetta frekar en að vera í skóla sjálf, maður vill auðvitað „make a difference“ og þarna voru engir sem kunnu ensku, allir töluðu frumtungu indíánanna eða spænsku,“ rifjar Björg upp og bætir því við að hún hafi hitt nákvæmlega eina hvíta manneskju meðan á dvöl hennar meðal Zacatecos-fólksins stóð, Þjóðverja, sem hafði fengið þá flugu í höfuðið að hjóla þvert yfir Mexíkó. Segir þá ekki meir af skiptinemadvöl þessari.

Sundsprettur með syninum Þórhalli, Tolla, einhvers staðar úti í heimi. …
Sundsprettur með syninum Þórhalli, Tolla, einhvers staðar úti í heimi. Tolli missti föður sinn tveggja ára gamall og samdi lag til hans níu ára gamall og flutti á árlegri hátíð sem Björg stofnaði til fyrir syrgjandi ástvini. Hana sóttu 100.000 manns árið 2014. Ljósmynd/Aðsend

Listamannseðli Bjargar kviknaði snemma og héldu engin bönd. Hún hélt til Frakklands árið 1998 og nam þar við Academy of Fine Arts í Toulouse, undir handleiðslu hins nafntogaða myndlistamanns Jean Ducros. Um miðjan tíunda áratuginn lá leið hennar hins vegar til Barcelona á Spáni þar sem hún nam mósaíklist, marmaraskurð og vinnslu steindra blýglugga að miðaldasið auk þess að mála freskur að hætti sjálfs Michelangelo. „Til að læra list langaði mig að fara alveg niður í ræturnar, þangað sem gamla tæknin varð til, að hætti Rómverja og Forn-Grikkja. Ég vissi að til að gera hlutina almennilega yrði ég að kynna mér hvernig fólk gerði þá í gamla daga,“ segir Björg af þessari köllun sinni.

Blýglervinnsluna segir Björg ekki kennda lengur, hennar hópur í skólanum í Barcelona, La Massana eins og hann heitir, hafi verið sá síðasti til að nema þá list. „Þetta var rosalega flott, þegar ég var í skólanum var hann rekinn í gömlu klaustri alveg niðri í miðbæ og appelsínutré uxu í garði í miðri byggingunni. Mér fannst æðislegt að búa í Barcelona, en hún var mun hættulegri á þessum tíma en núna, margar götur og jafnvel hverfi, sem ekki var óhætt að fara um. Núna er búið að taka svolítið til í henni svo ástandið er mun betra, hún hefur breyst hratt og mikið,“ rifjar Björg upp.

Kærastinn sjö árum eldri en pabbi

Ástin hefur vitanlega knúið dyra hjá listakonunni íslensku – og það hefur sorgin líka. Björg varð fyrir því þunga áfalli að verða ekkja aðeins þrítug, eftir hjónaband, sem átti sér aðeins fimmtán mínútna aðdraganda, en þó sveipað slíkum ævintýraljóma að töfrum er líkast. „Eftir að náminu í Barcelona lauk fór ég með bestu vinkonu minni, spænskri stelpu sem var með mér í náminu, að ferðast um Evrópu,“ segist Björgu frá örlagaríkum kafla í lífi sínu, sem þó varð kveikjan að árlegu verkefni er vakið hefur verðskuldaða athygli.

Breski listmálarinn Eric Scott heitinn bað Bjargar eftir fimmtán mínútna …
Breski listmálarinn Eric Scott heitinn bað Bjargar eftir fimmtán mínútna kynni. Þau giftu sig í Miami og héldu fjögurra daga brúðkaupsveislu á heimili Dave Stewart úr hljómsveitinni Eurythmics. „Eric var ægilegur rokkari og eiginlega í allt öðru sólkerfi en ég,“ segir Björg um eiginmanninn sem var sjö árum eldri en tengdafaðirinn. Ljósmynd/Aðsend

„Við gerðum glugga fyrir kirkju á Suður-Spáni og máluðum freskur í Barcelona, bjuggum á hótelum í Mónakó og vorum í raun bara að ferðast um og vinna. Svo liggur leiðin til Suður-Frakklands þar sem ég hitti manninn minn, sem var þrjátíu árum eldri en ég, svo ég kom heim með mann sem var sjö árum eldri en pabbi,“ segir Björg og skellir upp úr við tilhugsunina. Þetta var breski listmálarinn Eric Scott og tókust þegar miklir kærleikar með þeim Björgu, enda bað hann hennar stundarfjórðungi eftir að fundum þeirra bar saman.

„Við giftum okkur í Miami mánuði eftir að við kynntumst og héldum fjögurra daga veislu í húsi Dave Stewart úr Eurythmics í Suður-Frakklandi. Eric var ægilegur rokkari og eiginlega í allt öðru sólkerfi en ég, stöðugur gestagangur heima hjá honum. Þangað kom [tónlistarmaðurinn] Robbie Williams til að biðja hann að mála mynd fyrir sig og Mick Jagger [söngvari Rolling Stones] heimsótti hann líka. Það var bara partý og þetta var sko allt annað líf en ég átti að venjast,“ rifjar Björg upp, en þau hjónin bjuggu þá í kvikmyndahátíðarborginni frægu Cannes.

Ljósmyndarinn sem leyndi á sér

Eins og Íslendingum sæmir sýndi eiginkonan fádæma gestrisni á heimilinu og splæsir skondinni sögu. „Ég var bara hugguleg við alla þótt ég vissi oftast ekkert hvaða fólk þetta væri. Einu sinni var einn í heimsókn, sem var mikill áhugamaður um ljósmyndun og talaði alla veisluna um ljósmyndun og myndlist. Eftir matinn spurði Eric mig hvort ég hefði ekki haft gaman af að tala við hann og ég sagði bara jú, hann þarna ljósmyndarann, jú jú, hann vissi greinilega hvað hann var að tala um.

Björg á forsíðu Tara þar sem hún var með eigið …
Björg á forsíðu Tara þar sem hún var með eigið aukablað um jólin, ekki fyrsta forsíðumyndin af listakonunni íslensku á norskum tímaritum og alveg örugglega ekki sú síðasta. Ljósmynd/Aðsend

Þá sagði Eric mér með bros á vör að þetta væri nú einn af þekktustu leikurum heims,“ segir Björg kímin, enda hafði hún verið að hlusta á lærða ljósmyndafyrirlestra leikarans, leikstjórans og handritshöfundarins Dennis Hoppers heitins, sem gerði garðinn frægan í kvikmyndum á borð við Easy Rider, Blue Velvet og Speed svo aðeins brot sé nefnt, en Hopper var mikill ljósmyndaáhugamaður og gaf út bækur um ljósmyndun, að ógleymdu hlutverki hans sem ljósmyndari í stórvirkinu Apocalypse Now frá 1979.

En enginn má sköpum renna, eiginmaðurinn, sem þjáðist af astma, lést sextugur að aldri árið 2005 frá eiginkonu og tveggja ára syni þeirra, Þórhalli, eða Tolla í daglegu tali. Sorgin í kjölfarið var mæðginunum þungbær, en varð jafnframt kveikjan að verkefni, sem Björg hleypti af stokkunum á allraheilagramessu, 1. nóvember, árið 2006, og hefur ár hvert síðan dregið að sér æ fleiri gesti, sem misst hafa ástvini.

Tilfinningar með orðum ekki hættulegar

Er þar á ferðinni Hjertefred, eða Hjartans friður. „Tolli missti pabba sinn og ég óskaði þess að hann hefði eitthvað til að minnast hans á hverju ári,“ útskýrir Björg. „Núna fer þetta fram á 27 stöðum í Noregi samtímis, en síðast komu 5.000 manns bara á viðburðinn hér í Sandvika [í Bærum],“ segir Björg en samkomur undir merkjum Hjartans friðar, sem norskir fjölmiðlar hafa ítrekað fjallað um, eru haldnar undir berum himni, gjarnan í almenningsgörðum eða á öðrum almennum samkomustöðum og sóttu samtals tæplega 100.000 manns samkomurnar árið 2014.

Fjölskyldan böðuð ljósi á Hjartans friði sem haldinn er samtímis …
Fjölskyldan böðuð ljósi á Hjartans friði sem haldinn er samtímis á allraheilagramessu ár hver á tæplega 30 stöðum vítt og breitt um Noreg. Hryggjarstykkið er þó í Sandvika í Bærum. Ungi maðurinn á milli Bjargar og Herdísar er Tolli. Ljósmynd/Aðsend

„Fólk í englabúningum tekur á móti þátttakendum og afhendir þeim eldspýtnastokka skreytta mynd eftir mig. Ofan í stokkunum er blýantur með áletruninni „Þú ert sterkari en þú heldur“ og bréfsefni, sem fólk notar til að skrifa bréf til hins látna. Englarnir safna bréfunum svo saman í hrúgu og kveikja í þeim þannig að reykurinn stígur upp til himins. Þetta er mjög falleg athöfn,“ segir Björg, en hún ávarpar svo viðstadda í Sandvika og býður gestina velkomna áður en samkoman heldur áfram með kórsöng, ljóðalestri og árabátum, sem róið er upp ána í Sandvika og undir brúna yfir hana.

Björg flytur árlegt ávarp sitt á Hjartans friði og býður …
Björg flytur árlegt ávarp sitt á Hjartans friði og býður gesti sína velkomna. Hún kveður tilfinningar ekki hættulegar séu þær ræddar, annað og verra séu þær þagðar í hel. Ljósmynd/Aðsend

„Tolli samdi sjálfur lag til pabba síns þegar hann var níu ára og söng það á samkomunni,“ segir stolt móðir af syni sínum, sem nú er tæplega tvítugur. „Það er gott að vera saman í sorginni, tilfinningar eru ekki hættulegar þegar orð eru sett við þær. Hins vegar eru þær hættulegar þegar maður notar ekki orð til að fá þær út,“ lýkur Björg Þórhallsdóttir máli sínu, söluhæst kvenkyns grafískra listamanna í Noregi síðastliðinn áratug og ótæmandi sagnabrunnur, sem sannarlega liggur margt á hjarta.   

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert