Handritin heim segir menningarmálaráðherra

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningarmálaráðherra úr röðum Framsóknarflokksins, vill fleiri íslensk handrit heim úr vörslu danskra stjórnvalda til þess að gera megi rannsóknir á þeim hérlendis. Þá segist hún einnig vilja að Íslendingar geti með auðveldari hætti kynnt börnum fyrir menningargersemunum. 

Þetta sagði hún í viðtali í þættinum Deadline, sem sýndur er í danska ríkisútvarpinu. Greint er frá því sem þar kom fram á vef Stjórnarráðsins með sérstakri fréttatilkynningu. 

Enn um 700 handrit í Danmörku

„Handritin eru mikilvægur hluti menningararfleifðar okkar sem nauðsynlegt er að viðhalda og miðla - og þar eru tækifæri til að gera betur. Við þurfum að rannsaka handritin og kynna börnin okkar fyrir þeim og komandi kynslóðir,“ sagði Lilja í þættinum. 

Í tilkynningu Stjórnarráðsins segir að menningarráðherra sé mjög í mun að fá fleiri handrit heim frá Danmörku, þar sem um 700 handrit eru varðveitt. Einnig segir að viðræður milli ríkjanna tveggja um aukna framtíðarsýn og aukna samvinnu um rannsóknir á þeim handritum sem enn eru í Danmörku. 

„Við verðum að gera þetta í sameiningu á vettvangi starfshópsins sem nú er að störfum og að Ísland fái þannig handritin til sín að láni til langs tíma. Við erum að byggja nýtt safn, Hús íslenskunnar, þar sem lögð verður enn meiri áhersla á rannsóknir og að handritin séu til sýnis,“ sagði Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert