Þriggja barna móðir dúxaði með 9,65

“Það var mjög krefjandi að fara aftur í skóla eftir …
“Það var mjög krefjandi að fara aftur í skóla eftir 8 ára pásu verandi komin með stóra fjölskyldu í þokkabót,“ segir Sandra. Ljósmynd/Aðsend

Sandra Friðriksdóttir, sem útskrifaðist úr fótaaðgerðafræði hjá Keili í síðustu viku, dúxaði með 9,65 í meðaleinkunn. Þetta segir í tilkynningu frá skólanum en um er að ræða hæstu einkunn í sögu skólans meðal útskriftarnema fótaaðgerðafræðinnar.

“Það var mjög krefjandi að fara aftur í skóla eftir 8 ára pásu verandi komin með stóra fjölskyldu í þokkabót. Það hjálpaði mikið að námið væri kennt í lotum, eina vikuna ertu heima að læra og hina ertu uppí skóla að læra,“ er haft eftir Söndru í tilkynningunni en hún er þriggja barna móðir.

„Auðvitað var maður smá stund að koma sér í rútínu og það þarf að skipuleggja sig mjög vel og vera með góðan sjálfsaga,“ segir Sandra en hún er uppalin á Akureyri og býr nú í Hafnarfirði ásamt manni sínum, 5 ára syni, 6 ára dóttur og 16 ára stjúpsyni.

Vildi geta ráðið vinnutímanum sjálf

Sandra útskrifaðist sem sjúkraliði árið 2011 og starfaði í tvö ár sem slíkur áður en hún ákvað að setjast aftur á skólabekk og læra meira. Hún segir að laun sjúkraliða og óhentug vaktavinna hafi hvatt sig til að læra meira. Hún hafi þó beðið með að láta verða af því meðan börnin voru yngri.

„Þá var ekki annað í stöðunni heldur en að drífa mig aftur í skóla og láta verða að því að fara í fótaaðgerðafræðina, enda heillaði það líka mikið að geta ráðið mínum vinnutíma sjálf,“ segir Sandra en hún kynntist náminu í gegn um vinkonu sína.

Keilir við Ásbrú þar sem fótaaðgerðafræðin er kennd.
Keilir við Ásbrú þar sem fótaaðgerðafræðin er kennd. Ljósmynd/Ruben Mencos

Yndislegar vinkonur og hlegið mest allan tímann

Sandra segir aðstoð kennara, hjálpsemi þeirra og félagsskapur bekkjarfélaga hafi lagt grunninn að árangrinum.

„Þarna eignaðist ég yndislegar vinkonur sem gerðu tímann minn í skólanum frábæran og það kom aldrei sá dagur sem ég hlakkaði ekki til að mæta í skólann, enda hlegið mest allan tímann.

Við vorum langflestar að koma aftur í nám eftir mislangar pásur og meirihlutinn komin með börn líka. Þannig við vorum allar á svipuðum stað og komum held ég langflestar ef ekki allar með það í huga að hafa gaman og kynnast hvor annarri.“

Sandra mun hefja störf á fótaaðgerða- og snyrtistofunni Lipurtá í Hafnarfirði um leið og hún fær starfsleyfið í hendurnar frá Embætti landlæknis. Hún stefnir jafnframt á frekara nám tengt fótaaðgerðafræðinni í framtíðinni, hvort sem það verður hér heima eða erlendis. „Svo er auðvitað freistandi að hafa á bakvið eyrað að geta einhvern tímann farið í eigin rekstur.“

mbl.is