Ók á ofsahraða undir áhrifum fíkniefna

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bifreið var stöðvuð í Hafnarfirði í gærkvöldi eftir hraðamælingu sem sýndi að ekið hafði verið á 126 km/klst. þar sem hámarkshraði var 80 km/klst. Við nánari eftirgrennslan lögreglu vaknaði grunur um að ökumaður væri undir áhrifum fíkniefna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Þá var maður færður í fangageymslu hafandi verið handtekinn í hverfi 110 seint í nótt grunaður um líkamsárás og vörslu fíkniefna. Hann er enn í haldi í þágu rannsóknarhagsmuna.

Í nótt var maður í annarlegu ástandi handtekinn vegna gruns um að hann hafi átt þátt í líkamsárás. Hann er vistaður í fangageymslu vegna rannsóknarhagsmuna.

Tilkynnt var um innbrot í íbúðarhúsnæði í hverfi 101 um kvöldmatarleytið í gær. Farið hafði verið inn um glugga og verðmætum stolið.

Um tvö umferðaróhöpp var tilkynnt í gær og í báðum tilfellum missti ökumaður stjórn á bifreið sinni og hafnaði á ljósastaur. Annars vegna kom þetta fyrir í hverfi 109 um klukkan hálfellefu í gærkvöld og svo í hverfi 105 um klukkan hálftvö í nótt.

Eitt tilfelli var um að ökumaður væri stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Í ljós kom að maðurinn ók án akstursréttinda og það ekki í fyrsta sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert