Hefðu átt að fjarlægja kórónuna fyrir löngu

Alþingi er enn skreytt með merki konungsins fyrrverandi.
Alþingi er enn skreytt með merki konungsins fyrrverandi. mbl.is/Hari

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur sett fram tillögu til þingsályktunar um að forseta Alþingis verði falið að fjarlægja kórónu og merki Kristjáns IX, fyrrverandi Danakonungs, af burst á þaki Alþingishússins og setja þess í stað viðeigandi merkingar íslenskrar þjóðar og þings.

„Merki Kristjáns IX hefði að sjálfsögðu átt að vera löngu búið að fjarlægja. Tillagan útskýrir sig að öðru leyti sjálf þar sem Alþingi Íslendinga starfar ekki í umboði danskrar krúnu,“ segir í greinargerð með tillögu Björns Levís. 

Hér sést kórónan betur.
Hér sést kórónan betur. mbl.is/Hari

Tímasetning þingsályktunartillögu Björns Levís kann sumum að þykja athygliverð því Danir ollu mörgum Íslendingum vonbrigðum þegar þeir töpuðu leik gegn Frökkum á Evrópumeistaramótinu í handbolta í Búdapest í gær. 

Lýstu netverjar margir hverjir yfir vonbrigðum sínum með frammistöðu Dananna, enda hefðu Íslendingar komist í undanúrslit keppninnar ef Danir hefðu farið með sigur af hólmi í leiknum gegn Frökkum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina