„Maður sér ekki svona lagað á Íslandi“

Sjónarvottur sem varð vitni að skotárás í miðbæ Reykjavíkur í nótt, segist hafa verið mjög skelkaður þegar hann hafi heyrt skothvelli rétt fyrir klukkan eitt í nótt og í framhaldinu séð mann með byssu á vappi við bílastæðahúsið við Ingólfsstræti. Karlmaður særðist í árásinni.

„Ég hringi strax í lögregluna. Hún og sérsveitin er mætt á sömu mínútu og lokar bílastæðahúsinu og farin að leita í bílum hér í kring,“ segir sjónarvotturinn sem ekki vill láta nafns síns getið.

„Þetta virtist vera lítil vélbyssa, eitthvað svoleiðis,“ bætir hann við.

Þrír íslenskir karlmenn, rétt rúmlega tvítugir, eru í haldi lögreglu í tengslum við árásina en sjónarvotturinn segist aðeins hafa séð einn byssumann. Einn karlmaður særðist í árásinni en hann náði sjálfur að tilkynna um hana. Var hann í kjölfarið fluttur á sjúkrahús, en er ekki í lífshættu.

Aðspurður segist sjónarvotturinn aldrei hafa séð annað eins.

„Maður sér ekki svona lagað á Íslandi.“

Í myndbandi sem hann náði af aðgerðum lögreglu sést hvar vopnaðir sérsveitarmenn leita í bílastæðahúsi við Bergstaðarstræti í miðbæ Reykjavíkur.

Þessi skotárás er sú önnur í vikunni og lögreglan hefur þungar áhyggjur af auknum vopnaburði hérlendis.

Mikill viðbúnaður var vegna málsins.
Mikill viðbúnaður var vegna málsins. Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert