Gríðarlegur vopnaburður í miðbænum

Lögreglumenn eru í meiri hættu en áður, að sögn yfirlögregluþjóns.
Lögreglumenn eru í meiri hættu en áður, að sögn yfirlögregluþjóns. mbl.is/Árni Sæberg

Skotárás var gerð á karl og konu í Grafarholti aðfaranótt föstudags og særðist fólkið nokkuð illa í árásinni. Aðeins er um ár síðan maður var skotinn til bana fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði, en aukinn vopnaburður í undirheimunum og fólks almennt er áhyggjuefni, að sögn yfirlögregluþjóns.

Lögreglumenn upplifa sig í meiri hættu vegna þessa en lögregla ber almennt ekki skotvopn við störf sín.

Það liggur fyrir að vopnaburður almennt er að aukast. „Já, þetta er það sem við erum að sjá aukningu í. Eins og þennan gríðarlega vopnaburð hérna í miðbænum þegar fólk er að fara að skemmta sér, þá þurfa allir að vera með hnífa með sér eða eitthvað svoleiðis, til að verja sig,“ segir Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Myndir af vopnum birtar og sendar á Facebook

Þá virðist skotvopnum í umferð einnig vera að fjölga. „Já, það er alltaf að koma upp sú staða og meiri vitneskja um skotvopn. Það er meira um það.“ Þá segir Margeir töluvert um að menn sé að birta eða senda myndir af skotvopnum á Facebook, en hvort um er að ræða alvöruvopn eða leikföng er ekki alltaf vitað. „Það er klárt mál að við að við erum að sjá aukningu í því.“

Það er væntanlega töluvert áhyggjuefni?

„Já algjörlega, ég veit ekki hvert við erum að fara,“ segir Margeir. Landslagið sé töluvert breytt. „Eins og það sem hefur verið að koma upp í síðustu málum hjá okkur þá erum við að sjá nýjar myndir á þessu öllu saman, frá því sem áður var.“

Eru lögreglumenn þá ekki í meiri hættu en áður?

„Jú ég held að það hljóti að haldast í hendur. Það gerir það náttúrulega, það segir sig sjálft.“

Hrein og klár aftaka í Rauðagerði

Líkt og áður sagði var árásin í fyrrinótt önnur skotárásin á skömmum tíma, en þann 13. febrúar árið 2021 var Armando Beqirai skotinn fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði. Við aðalmeðferð málsins fyrir héraðsdómi sagði Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari að morðið hefði verið hrein og klár aftaka, en Armando var skotinn níu sinnum, þar af tvisvar í bakið. Árásarmaðurinn var svo farinn af vettvangi innan við mínútu síðar.

Angjelin Sterkaj játaði að hafa myrt Armando og var hann dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir morðið.

mbl.is