Vel skipulögð og sviðsett atburðarás

Svo virðist sem Vladimir Pútín Rússlandsforseti hafi fyrir löngu ákveðið …
Svo virðist sem Vladimir Pútín Rússlandsforseti hafi fyrir löngu ákveðið að ráðst inn í Úkraínu. AFP

Ekkert er að marka það sem kemur frá ráðamönnum í Kreml og því er furðulegt að sjá þegar því virðist stundum tekið sem jöfnu sem þaðan kemur og frá stjórnvöldum vestrænna lýðræðisríkja. Skýringar Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta á innrásinni í Úkraínu halda ekki vatni og þær hafa breyst nokkrum sinnum.

Þetta segir Baldur Þórhallsson, pró­fess­or í stjórn­mála­fræði við Há­skóla Íslands, í samtali við mbl.is. 

Hann segir að þetta þýði þó ekki að allt sem komi frá bandarískum stjórnvöldum sé heilagur sannleikur. Hins vegar sé það eins og að bera saman svart og hvítt að bera saman upplýsingar að vestan og frá Rússlandi.

Pútín býr alltaf eitthvað nýtt til

Baldur bendir á ræðu Pútíns frá því á mánudag þar sem forsetinn lýsti yfir sjálfstæði tveggja svæða í Úkraínu. „Hann veður úr einu í annað og fer með staðlausa stafi þegar kemur að sögu Úkraínu. Hann býr alltaf bara eitthvað nýtt til. Einn daginn er það að Úkraína hafi engan grundvöll til að vera sjálfstætt ríki, svo að allir íbúar þar séu í raun og veru Rússar og einnig að þeir séu núna undir fasistastjórn. Það er alltaf eitthvað nýtt búið til.“

Baldur Þórhallsson, pró­fess­or í stjórn­mála­fræði við Há­skóla Íslands.
Baldur Þórhallsson, pró­fess­or í stjórn­mála­fræði við Há­skóla Íslands. Mynd/Kristinn Ingvarsson

Ekki sé hægt að gefa neitt fyrir þessar skýringar Pútíns, frekar en það að hann hafi viljað leysa deiluna á diplómatískan hátt. „Hann er búinn að vera að slá ryki í augu ráðamanna og almennings í Vestur-Evrópu og Úkraínu með þessu tali um diplómatíska lausn en orðum fylgja ekki gjörðir þar,“ segir Baldur.

Í færslu á Facebook í morgun fjallaði Baldur meðal annars um að bandarísk stjórnvöld hafi frá því nokkru fyrir áramót sagt frá yfirvofandi innrás rússneska hersins í Úkraínu. Undir þetta hafi flestir sérfræðingar í öryggis- og varnarmálum austan hafs og vestan tekið undir í erlendum miðlum.

Vladimir Pútín, forseti Rússlands.
Vladimir Pútín, forseti Rússlands. AFP

„Það lítur út fyrir að þetta hafi verið ákveðið fyrir löngu síðan og þessi atburðarás sé í rauninni mjög vel skipulögð og vel sviðsett,“ segir Baldur. Honum þykir athyglisvert hvað bandarísk stjórnvöld deila mun meiri upplýsingum frá leyniþjónustunni með almenningi en áður og svo virðist sem allt sem stjórnvöld deili með almenningi sé að ganga eftir.

Láta ekki staðar numið fyrr en öll Úkraína er á þeirra valdi

„Við verðum að fara að taka af alvöru þegar hver ráðamaður á fætur öðrum í Vestur-Evrópu segir að allar líkur sé á því að Rússar ráðist inn í Úkraínu. Mér finnst sumir íslenskir ráðamenn og fjölmiðlar ekki hafa tekið það alvarlega.“

Spurður um framhaldið segir Baldur ljóst að rússneski herinn sé ekki að fara að láta staðar numið fyrr en hann hafi náð allri Úkraínu á sitt vald. Hann telur Pútín ekki vilja fara í stríð við NATO-ríki en mun þess í stað líklega herða tök sín í þeim löndum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og hafa ekki gengið í NATÓ.

mbl.is