Undirbúningur komu flóttafólks kominn á fullt

Stefán segir undirbúning hafin vegna móttöki flóttafólks frá Úkraínu.
Stefán segir undirbúning hafin vegna móttöki flóttafólks frá Úkraínu. AFP

Íslensk stjórnvöld munu taka á móti á móti flóttafólki frá Úkraínu, að sögn Stefáns Vagns Stefánssonar, formanns flóttamannanefndar. Nefndin fundaði í dag og var sú ákvörðun tekin, en lögð hafi verið áhersla á að ganga í takt við aðrar Evrópuþjóðir.

„Við erum komin á fullt í undirbúning á móttöku fólks frá Úkraínu sem er á flótta,“ segir Stefán í samtali við mbl.is. Ekki hafi hins vegar verið tekin ákvörðun um það ennþá hve mörgum verður tekið á móti.

„Við erum ekki komin svo langt, en það er alveg ljóst að íslensk stjórnvöld munu axla sína ábyrgð og taka á móti fólki.“

Ræða við sveitarfélögin

Stefán segir nú unnið að ræða við sveitarfélögin og fá þau til að aðstoða við verkefnið. Finna þurfi fólki húsnæði og sveitarfélögin séu þar lykilaðilar. Gleðilegt hafi verið að sjá þá velvild sem þau hafi sýnt síðustu daga.

Tæplega milljón manns hafa nú þegar flúið frá Úkraínu.
Tæplega milljón manns hafa nú þegar flúið frá Úkraínu. AFP

„Í gær og í dag hafa mörg þeirra verið að taka undir áskorun Sambands íslenskra sveitarfélaga um að koma að þessu með einum eða öðrum hætti. Það er alveg ljóst, að mínu viti, að það er ekkert eitt eða tvö sveitarfélög sem geta borið hitann og þungann af þessu. Það verða miklu fleiri að koma að.“

„Við erum að tala um Evrópuþjóð“

Stefán segir vinnuna ekki komna á þann stað að byrjað sé að forgangsraða ákveðnum hópum, en bendir á að Úkraínumenn geti komið til Íslands og verið hér á landi í 90 daga á ferðavísa. Þá sé líka búið að taka Úkraínu af lista Útlendingastofnunar yfir örugg ríki.

„Fólk getur komið hingað og sótt um alþjóðlega vernd þannig þetta er allt saman opið og þetta er strax byrjað. Það er töluverður hópur, einhverjir tugir, sem hafa komið hingað til lands og óskað eftir vernd nú þegar.“

Hann segir verkefnið öðruvísi heldur en þau sem fengist hafi verið við, eins og til dæmis varðandi Afganistan. „Þetta er miklu nær okkur og öðruvísi af því þetta er innan Evrópu. Við erum að tala um Evrópuþjóð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert