„Á þetta hundaflaututal að fá að viðgangast“

Þórhildur spurði hvort ekki ætti að mótmæla yfirlýsingum dómsmálaráðherra.
Þórhildur spurði hvort ekki ætti að mótmæla yfirlýsingum dómsmálaráðherra. mbl.is/Hari

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Guðmund Inga Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun, hvort stjórnarliðum bæri ekki að mótmæla yfirlýsingum dómsmálaráðherra um að fjöldi hælisleitenda sem þegar hefði verið vísað úr landi, en neitaði að fara í PCR-próf, tefði fyrir móttöku flóttafólks frá Úkraínu.

„Á þetta hundaflaututal að fá að viðgangast algjörlega óáreitt af stjórnarliðum? Má þetta bara í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur?“ spurði Þórhildur Sunna.

Í svari sínu sagðist Guðmundur Ingi vera þeirrar skoðunar að í svona málum væri best að tala varlega og af virðingu við fólk, en lagði áherslu á að flóttafólk sem nú þegar væri hér á landi, tefði ekki fyrir komu annarra til landsins.

„Ég ætla að vera alveg skýr með það að það er ekki verið að teppa eitt eða neitt þegar kemur að móttöku fólks frá Úkraínu. Við munum ekki láta málefni annarra hópa eða stöðuna hvernig hún er hjá Útlendingastofnun hafa áhrif á það hvernig við tökum á móti fólki frá Úkraínu. Það væri ekki mikil mannúð í því.“

Spurði hvort stæði til að rýma húsnæði 

Þá spurði Þórhildur Sunna út í nýtt útlendingafrumvarp sem ráðherra hefði boðað og myndi leysa þessi mál. Spurði hún hvort félagsmálaráðherra myndi standa fyrir því að rýma húsnæði annarra flóttamanna til að koma fyrir flóttafólki frá Úkraínu.

Hvað frumvarpið varðar sagði Guðmundur Ingi búið að leggja það fyrir í samráðsgátt stjórnvalda en hann hefði ekki séð það eftir að það kom úr samráði. Ekki væri búið að fara yfir þann hluta sem snýr að hans ráðuneyti.

Guðmundur Ingi segir best að tala varlega og af virðingu.
Guðmundur Ingi segir best að tala varlega og af virðingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert