Íslendingar upplifa ótta vegna stríðsins

Meirihluti telja að átökin eigi eftir að breiðast út til …
Meirihluti telja að átökin eigi eftir að breiðast út til fleiri landa. AFP

Ríflega helmingur landsmanna finnur fyrir óöryggis tilfinningu eða ótta vegna ástandsins er varðar innrás Rússa í Úkraínu. Flestir telja að hernaðaraðgerðirnar eigi eftir að breiðast út til fleiri landa og telja refsiaðgerðir ekki duga til að stöðva stríðið. Þetta kemur fram í nýjum Þjóðarpúls Gallup um stríðið í Úkraínu.

Yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga fordæma hernaðaraðgerðir Rússlands í Úkraínu eða 99% og um 93% eru frekar-, mjög- eða algjörlega ósammála því að aðgerðir Rússa séu að einhverju leyti réttlætanlegar.

Um eitt prósent Íslendinga styðja aðgerðirnar og tæp fjögur prósent eru að hluta eða með öllu sammála því að aðgerðirnar séu einhverju leyti réttlætanlegar. 

Styðja refsiaðgerðir en ekki vissir um gagnsemi þeirra

Þá eru landsmenn nokkuð svartsýnir á að efnahagsaðgerðir muni koma til með að halda aftur að hernaðaraðgerðunum. Til samanburðar telja einn af hverjum fimm það möguleika að refsiaðgerðirnar beri árangur en þrír af hverjum fimm telja það ólíklegt. Þá eru konur bjartsýnari en karlar.

Um 89% landsmanna var þó sammála því að alþjóðasamfélagið eigi að beita sér gegn Rússum með hörðum efnahagsaðgerðum. Um 8% voru ósammála en 4% segjast hvorki vera sammála eða ósammála.

Úkraínumenn eigi ekki að gefast upp

Spurðir út í framvindu stríðsins og áhrif á önnur lönd, voru lang flestir á því máli að hernaðaraðgerðir myndu breiðast út til annarra landa, eða þrír af hverjum fimm. Fjórðungur taldi það ólíklegt.

Þá taldi yfirgnæfandi meirihluti að úkraínsk stjórnvöld ættu ekki að verða við beiðni Rússa og leggja niður vopn heldur veita mótspyrnu. Um 8% voru ósammála því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert