Skorar hátt í stormdagavísitölunni

Snjóþyngsli hafa sett svip sinn á veturinn það sem af …
Snjóþyngsli hafa sett svip sinn á veturinn það sem af er. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýliðinn febrúarmánuður var mjög illviðrasamur og snjóþungur. Janúar var sömuleiðis mjög umhleypingasamur. Hvassviðri voru tíð og töluvert var um samgöngutruflanir og foktjón.

Ýmsir hafa haft á því orð að þetta sé óvenjulangur tími illviðra en svo er alls ekki. Veðurminnið er nefnilega brigðult. Ekki þarf að fara lengra aftur en veturinn 2019-20 sem var afar illviðrasamur svo ekki sé minnst á 2014-15, sem kallaður hefur verið illviðraveturinn mikli. En veturinn núna er að komast í þeirra hóp samkvæmt stormdagavísitölu sem Trausti Jónsson veðurfræðingur reiknar út og segir frá á Hungurdiskum á Moggablogginu.

Umhleypingarnir núna byrjuðu nærri áramótum, segir Trausti aðspurður. Bæði september og nóvember voru að vísu umhleypingasamir, en ekki fór mjög illa með þrátt fyrir það, segir Trausti. „Desember var óvenjuveðralítill (þótt ég yrði þá reyndar persónulega fyrir fyrsta foktjóni mínu um langt árabil). Janúar og febrúar hafa verið mjög illviðrasamir. Janúar þó snjólítill þannig að þótt fok- og sjávarflóðatjón væri allmikið varð ekki mjög veruleg röskun á samgöngum. Snjór hefur bæst við vandræðin í febrúar, með vatnselg líka auk hvassviðra,“ bætir Trausti við.

En eru svona illviðratímabil algeng? Því svarar Trausti játandi. Ekki þarf að leita langt aftur í svipað. Tímabilið frá desember og fram yfir miðjan apríl í hitteðfyrra (2019 til 2020) hafi líka verið sérlega umhleypinga- og illviðrasamt. Enn sem komið er sé það því lengra heldur en það sem nú stendur yfir. Næsta langa illviðratímabil þar á undan hafi verið 2014 til 2015.

„Síðan finnum við á fyrri tíð fjölda slíkra tímabila – þó eru allmikil áratugaskipti – og stundum koma líka nokkur illviðralítil ár í kippum,“ segir Trausti.

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í gær. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert