76 Úkraínumenn sótt um hæli

Flóttafólk frá Úkraínu gæti verið fleira en opinberar tölur gefa …
Flóttafólk frá Úkraínu gæti verið fleira en opinberar tölur gefa til kynna. AFP

Alls hafa nú 76 Úkraínumenn sótt um alþjóðlega vernd hér á landi frá 24. febrúar, þegar Rússar réðust inn í Úkraínu. Þetta segir Jón Pétur Jónsson, yfirlögregluþjónn landamærasviðs lögreglustjóra.

Til skoðunar er að setja móttökukerfi flóttamanna á landamærunum af óvissustigi á hættustig, þar sem álagið á kerfinu er mikið um þessar mundir. 

Þá hafa Úkraínumenn heimild til dvalar á Íslandi í allt að þrjá mánuði áður en sótt er um vernd. 

Bendir umferð til landsins ekki til þess að fjöldinn sé meiri, en ekki allir hafi sótt um vernd enn þá?

„Við getum ekki útilokað að þeir hafi komið á grundvelli þeirra réttinda sem þeir hafa, en við búum ekki yfir upplýsingum um það,“ segir Jón Pétur.

Fjölgað í hópnum vegna fjöldaverndar

Horft er heildstætt á móttökukerfið þegar viðbúnaðarstigið er metið. 

„Við erum að horfa heildstætt á móttökukerfið, frá því einstaklingur kemur til landsins og þar til hann fær þjónustu. Það má segja að móttökukerfið sé að endurstilla sig, nú þegar verið er að horfa til 44. gr. útlendingalaga,“ segir hann.

Á grundvelli ákvæðisins er hægt að veita sameiginlega vernd vegna fjöldaflótta frá ákveðnum svæðum – hafa frá áramótum alls 320 manns sótt um alþjóðlega vernd hér á landi og er búist við fleirum frá Úkraínu eins og sakir standa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert