Einkaleyfi „undir háþrýstingi“

Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) segja að með samþykkt frumvarpsins …
Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) segja að með samþykkt frumvarpsins yrði tekið eðlilegt skref, og auknar líkur á að innlend verslun fái að þróast í samhengi við erlenda þróun. mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Afar skiptar skoðanir eru á hvort leyfa á netverslun með áfengi að því er fram kemur í umsögnum við frumvarp Hildar Sverrisdóttur og fjögurra meðflutningsmanna á Alþingi. Lagt er til í frumvarpinu að heimilað verði að starfrækja vefverslun með áfengi í smásölu til neytenda, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) segja að með samþykkt frumvarpsins yrði tekið eðlilegt skref, og auknar líkur á að innlend verslun fái að þróast í samhengi við erlenda þróun. Enginn vafi ríki á um heimildir erlendra vefverslana til að selja íslenskum neytendum áfengi og engar takmarkanir séu heldur á heimildum neytenda til þátttöku í slíkum viðskiptum. Slík netverslun virðist hafa dafnað á tímum heimsfaraldursins en einkaleyfi ÁTVR feli í sér skorður á atvinnufrelsi og það sé „undir háþrýstingi um þessar mundir“.

Landlæknir varar hins vegar við afleiðingum þess að veita undanþágu frá einkaleyfi ÁTVR og opna fyrir vefverslun með áfengi. Breytingarnar séu til þess fallnar að auka og auðvelda aðgengi að áfengi. „Samkvæmt niðurstöðum árlegrar vöktunar áhrifaþátta heilbrigðis árið 2021 féll tæpur fjórðungur Íslendinga undir þá skilgreiningu að vera með skaðlegt neyslumynstur áfengis eða svokallaða áhættudrykkju, 25% karla og 20% kvenna. Það eru um 30 þúsund karlar og 24 þúsund konur,“ segir í umsögn Landlæknis.

Samtök iðnaðarins segja þörf á víðtækari endurskoðun, m.a. með því að aflétta auglýsingabanni því íslenskir framleiðendur sitji ekki við sama borð og erlendir áfengisframleiðendur. Í frumvarpinu komi og fram „að innlendir framleiðendur hafi í einhverjum tilvikum selt vörur sínar til erlendra vefverslana sem hafa selt vöruna aftur til íslenskra neytenda. Er því ljóst að víða er pottur brotinn í löggjöfinni varðandi smásölu á áfengi hér á landi og vonast samtökin til að frumvarp þetta verði innlegg í þá umræðu.“

Gengur þvert á stefnu WHO

Krabbameinsfélag höfuðborgarsvæðisins bendir aftur á móti á að áfengisdrykkja geti valdið a.m.k. sjö mismunandi krabbameinum og frumvarpið gangi þvert á stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um að vinna markvisst að því að draga úr heildarneyslu áfengis. „Félagið vill um leið varpa fram þeirri spurningu til þingmanna sem hugsa sér að samþykkja frumvarp þetta hvort næsta skref væri hjá þeim að samþykkja vefsölu tóbaks og nikótínvarnings?“ segir í umsögn félagsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert