Ekkert í fari móður skýri hina litlu umgengni

Drengirnir eru nú hjá móður sinni á Íslandi, en til …
Drengirnir eru nú hjá móður sinni á Íslandi, en til stendur að þeir fari að æfa fótbolta og sund. Ljósmynd/Colourbox

Lögmaður Eddu Bjarkar Arnardóttur, sem nam syni sína á brott frá suðurhluta Noregs fyrr í vikunni, segir að ekkert í fari Eddu skýri hina litlu umgengni sem norskur dómstóll úrskurðaði að hún fengi við syni sína, líkt og lögmaður föðurins hefur haldið fram. Heldur sé einfaldlega um að ræða réttarástandið í Noregi. Norskir dómstólar hafi ítrekað brotið gegn 8. grein Mannréttindasáttmála Evrópu, enda hafi dómarnir í för með sér rof á fjölskyldutengslum.

Sam­kvæmt norsk­um dóms­úrsk­urði fær Edda aðeins að hitta dreng­ina und­ir eft­ir­liti fjór­um sinn­um á ári, fjór­ar klukku­stund­ir í senn og skal þá töluð norska. Faðirinn, sem einnig er íslenskur, fer einn með forsjá drengjanna og hafa þeir lögheimili hjá honum í Noregi.

Samkvæmt sama úrskurði eiga tvær alsystur drengjanna hins vegar að hafa lögheimili hjá móður sinni á Íslandi, þó foreldrarnir fari sameiginlega með forsjá þeirra. Faðir þeirra má aðeins hitta þær fjórum sinnum á ári, fjóra tíma í senn, eða samtals 16 tíma á ári. Föður var því dæmd sama umgengi við dætur sínar og móðurinni var við synina.

Segir föðurinn óttast um drengina

Leifur Runólfsson, lögmaður föður drengjanna, sagði í samtali við mbl.is í gær að faðirinn hefði áhyggjur af sonum sínum. Hann vildi hins vegar ekki fara nánar út í þær áhyggjur, en áður hafði Leifur sagt í samtali við Fréttablaðið að drengirnir væru í hættu.

Í samtali við mbl.is sagði Leif­ur seg­ir að það hlyti að vera ástæða fyr­ir því að norsk­ir dóm­stól­ar hafi ákveðið að tak­marka um­gengni móður með þess­um hætti.

„Það þarf nátt­úru­lega svo­lítið að koma til, til að um­gengni sé svona lít­il. Það er ein­hver ástæða fyr­ir því að dóm­ar­inn dæm­ir þetta svona. Það er ekki faðir eða móðir sem dæm­ir þetta svona,“ sagði Leifur.

Hafi í för með sér rof á fjölskyldutengslum

Hildur Sólveig Pétursdóttir, lögmaður Eddu, segir það ekki rétt sem Leifur gefur í skyn, að eitthvað sé að hjá móður sem gefi tilefni til að takmarka umgengni hennar við börn sín. Ekkert í fari móðurinnar skýri það að umgengni hennar við synina hafi verið takmörkuð með þessum hætti. Hildur segir ákvörðun norskra dómstóla vera skýrt brot gegn 8. grein Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu um rétt­inn til friðhelgi einka­lífs og fjöl­skyldu.

Hún bendir á að fjöldi norskra forsjár- og umgengismála hafi farið fyrir Mannréttindadómstólinn og í þeim málum lúti dómarnir flestir að því atriði að verið sé að brjóta gegn 8. greininni. Eining fjölskyldunnar og fjölskyldusameining séu verndaðir þættir og þær takmarkanir á umgengnisrétti foreldra við börn sín, sem norskir dómstólar hafi verið að dæma, hafi í för með sér rof á fjölskyldutengslum.

Yngsti drengurinn sárkvalinn af tannverk

Edda, móðir drengj­anna, ræddi við mbl.is í vikunni en hún leigði einka­flug­vél til að fljúga með syn­ina til Íslands. Hún sagðist ekki hafa séð ann­an kost í stöðunni, enda taldi hún að vel­ferð barn­anna væri ógnað. Hún hafi verið orðin úrkula von­ar um að dóm­stóll í Nor­egi tæki mark á þeim gögn­um sem hún legði lagt fram. Því hafi hún gripið til þess að örþrifaráðs að sækja syn­ina til Nor­egs.

Fjöl­skyld­an bjó sam­an í Nor­egi um ára­bil og eft­ir skilnað for­eldr­anna árið 2015 höfðu öll börn­in lög­heim­ili hjá móður sinni í Nor­egi. Þegar hún svo vildi flytja til Íslands með þau árið 2017 var því hafnað og börn­in urðu eft­ir hjá föður sín­um í Nor­egi en for­eldr­arn­ir fóru sam­eig­in­lega með for­sjá þeirra.

Börn­in fóru til móður sinn­ar á Íslandi í frí­um, en eft­ir páska­heim­sókn árið 2019 hélt hún börn­un­um eft­ir. Í sam­tali við mbl.is sagði hún að ástæðan hefði meðal ann­ars verið sú að tann­heilsa þeirra hafi verið mjög slæm. Sér­stak­lega drengj­anna. Sá yngsti, sem var þá fimm ára, hafi verið með mikl­ar tann­skemmd­ir og sár­kval­inn af rót­ar­sýk­ingu. Þá hafi dæt­urn­ar ekki viljað fara aft­ur til föður síns.

Fékk sex mánaða fang­els­is­dóm

Edda sagðist hafa von­ast til að dóm­stól­ar tækju mark á þeim gögn­um sem lögð voru fram um heilsu og líðan barn­anna.

„Ég hélt þeim eft­ir og vonaðist eft­ir því, í ljósi aðstæðna, að þeir sæju af hverju ég gerði þetta. En ég fékk samt sex mánaða fang­els­is­dóm, óskil­orðsbund­inn.“

Í kjöl­farið var kveðinn upp úr­sk­urður í Nor­egi, án þess að móðir væri boðuð eða fengi að halda uppi vörn­um, um að faðir­inn skyldi fara með for­sjá drengj­anna og þeir skyldu áfram hafa lög­heim­ili hjá hon­um. Um­gengni móður­inn­ar skyldi tak­mörkuð með áður­nefnd­um hætti. Stúlk­urn­ar skyldu hins veg­ar hafa lög­heim­ili hjá móður sinni á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert