Séð til þess að drengirnir fari til föður síns

Drengirnir eru nú hjá móður sinni í Reykjavík.
Drengirnir eru nú hjá móður sinni í Reykjavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Áframhaldandi virkt samtal er á milli norskra og íslenskra lögregluyfirvalda vegna brottnáms þriggja íslenskra drengja frá suðurhluta Noregs fyrr í vikunni. Þetta staðfestir Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is.

Málið er á forræði norskra yfirvalda og fer eftir réttarreglum þar varðandi samskipti á milli landa, að sögn Karls. Það sé því norskra yfirvalda að ákveða hvað eða hvort eitthvað verði gert, og tjá sig um það.

Fram hefur komið að norskur lögmaður föðurins hefur lagt fram kæru á hendur móðurinni í Noregi.

Móðir drengjanna nam þá á brott  þegar þeir voru á leið heim úr skóla og fór með þá til Íslands, en þeir hafa búið hjá íslenskum föður sínum í Noregi sem fer einn með forsjá þeirra. Samkvæmt norskum dómsúrskurði má móðirin aðeins hitta drengina undir eftirliti fjórum sinnum á ári, fjórar klukkustundir senn og þau skulu tala saman á norsku.

Tvær alsystur drengjanna búa hjá móður sinni á Íslandi en foreldrarnir fara sameiginlega með forsjá þeirra. Ekki er gert ráð fyrir því að systurnar taki þátt í samverustundum móðurinnar með bræðrunum.

„Að sjálfsögðu hefur faðir áhyggjur af börnunum sínum“

Leifur Runólfsson, lögmaður föður drengjanna, segir að væntanlega verði höfðað innsetningarmál við héraðsdóm hér á landi nema móðirin afhendi börnin. „Ef hún afhendir ekki börnin eða börnin fara ekki heim til föður, þá verður að sjálfsögðu séð til þess,“ segir Leifur í samtali við mbl.is

Hann segir að faðirinn hafi áhyggjur af drengjunum, en vill ekki fara nánar út í það í hverju þær áhyggjur felast og hvort hann telji að þeir séu í hættu. „Að sjálfsögðu hefur faðir áhyggjur af börnunum sínum. Þetta er óvenjuleg aðferð til að sækja börnin sín.“

Leifur segir að það hljóti að vera ástæða fyrir því að norskir dómstólar hafi ákveðið að takmarka umgengni móður með þessum hætti.

„Það þarf náttúrulega svolítið að koma til, til að umgengni sé svona lítil. Það er einhver ástæða fyrir því að dómarinn dæmir þetta svona. Það er ekki faðir eða móðir sem dæmir þetta svona.“

Hann segir þetta ekki snúast um eitthvað Biblíubelti í Noregi eða að norsk stjórnvöld vilji ekki að börn fari til heimalands síns, eins og móðirin hafi haldið fram.

Telur velferð barnanna ógnað hjá föður

Edda Björk Arnardóttir, móðir drengjanna, ræddi við mbl.is í gær en hún leigði einkaflugvél til að fljúga með synina til Íslands. Hún sagðist ekki hafa séð annan kost í stöðunni, enda taldi hún að velferð barnanna væri ógnað. Hún hafi verið orðin úrkula von­ar um að dóm­stóll í Nor­egi tæki mark á þeim gögn­um sem hún legði lagt fram. Því hafi hún gripið til þess að örþrifaráðs að sækja syn­ina til Nor­egs.

Fjölskyldan bjó saman í Noregi um árabil og eftir skilnað foreldranna árið 2015 höfðu öll börnin lögheimili hjá móður sinni í Noregi. Þegar hún svo vildi flytja til Íslands með þau árið 2017 var því hafnað og börnin urðu eftir hjá föður sínum í Noregi en foreldrarnir fóru sameiginlega með forsjá þeirra.

Börnin fóru til móður sinnar á Íslandi í fríum, en eftir páskaheimsókn árið 2019 hélt hún börnunum eftir. Í samtali við mbl.is sagði hún að ástæðan hefði meðal annars verið sú að tannheilsa þeirra hafi verið mjög slæm. Sérstaklega drengjanna. Sá yngsti, sem var þá fimm ára, hafi verið með miklar tannskemmdir og sárkvalinn af rótarsýkingu. Þá hafi dæturnar ekki viljað fara aftur til föður síns.

Fékk sex mánaða fangelsisdóm

Edda sagðist hafa vonast til að dóm­stól­ar tækju mark á þeim gögn­um sem lögð voru fram um heilsu og líðan barn­anna.

„Ég hélt þeim eft­ir og vonaðist eft­ir því, í ljósi aðstæðna, að þeir sæju af hverju ég gerði þetta. En ég fékk samt sex mánaða fang­els­is­dóm, óskil­orðsbund­inn.“

Í kjöl­farið var kveðinn upp úr­sk­urður í Nor­egi, án þess að móðir væri boðuð eða fengi að halda uppi vörn­um, um að faðir­inn skyldi fara með for­sjá drengj­anna og þeir skyldu áfram hafa lög­heim­ili hjá hon­um. Um­gengni móður­inn­ar skyldi tak­mörkuð með áður­nefnd­um hætti. Stúlk­urn­ar skyldu hins veg­ar hafa lög­heim­ili hjá móður sinni á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert