Heita vatnið að klárast

Selfoss og séð yfir breiðurnar neðan við Ölfusárbrú.
Selfoss og séð yfir breiðurnar neðan við Ölfusárbrú. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Útþensla byggðar í Sveitarfélaginu Árborg, sérstaklega á Selfossi, hefur leitt til þess að geta Selfossveitna til að afhenda heitt vatn nálgast þolmörk. Ef þróunin verður á versta veg geta orðið tafir á því að hægt verði að byggja á lóðum sem þegar hefur verið úthlutað og öðrum svæðum sem skemmra eru á veg komin í undirbúningi. Einnig yrði þá að taka fyrir úthlutanir á nýjum lóðum. Selfossveitur vinna að virkjun borholna og leit að heitu vatni á nýjum stöðum.

Umhverfis- og mannvirkjasvið Árborgar hefur vakið athygli byggingarfulltrúa á þessu. Bent er á að samkvæmt reglum um úthlutun lóða telst lóð ekki byggingarhæf fyrr en hún geti tengst viðkomandi gatna- og lagnakerfi. Búið er að samþykkja 549 íbúðir sem eftir er að tengja við hitaveitu.

Útgáfu leyfa frestað?

Því er velt upp í ábendingu mannvirkja- og umhverfissviðs hvort rétt sé að fresta afgreiðslu umsókna um byggingaráform og útgáfu byggingarleyfa þar til tengingar við lagnakerfi hafi verið tryggðar og lóð telst byggingarhæf. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í skipulags- og byggingarnefnd lýstu áhyggjum vegna stöðunnar á fundi í gærmorgun. Töldu ljóst að innviðir hefðu verið vanræktir í þeirri miklu fjölgun sem orðið hefði í sveitarfélaginu. Ari Björn Thorarensen, annar fulltrúanna, segir að málið geti haft þær afleiðingar að miklar tafir verði á byggingu hjá þeim sem fengið hafi lóðir auk þess sem bærinn geti ekki úthlutað fleiri lóðum.

Sigurður Þór Haraldsson, veitustjóri Selfossveitna, segir að verið sé að virkja tvær borholur sem ætlunin er að nota í þá uppbyggingu sem þegar hafi verið samþykkt. Telur hann að nægt vatn muni fást til þess. Hins vegar geti orðið orkuskortur ef ekki finnist heitt vatn á nýjum stöðum. Tekur hann fram að unnið sé að rannsóknum með borunum á þremur stöðum og telur öruggt að hægt verði að leysa málið en það taki tíma.

Byggt við 17 götur á Hellu

Mikið er byggt á Suðurlandi og hefur bylgjan nú náð Hellu og Hvolsvelli. Nefna má sem dæmi að bygging 110 íbúða er að hefjast á Hellu auk 11 atvinnuhúsa. Í sumar verður unnið að byggingum við 17 götur í þessu eina þorpi.

Frá Selfossi.
Frá Selfossi. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: