Flutningabíll ók á brú og tættist í sundur

Kassi bílsins tættist í sundur við höggið.
Kassi bílsins tættist í sundur við höggið. mbl.is/Árni Sæberg

Rétt fyrir klukkan sex í gærkvöldi ók flutningabíll ók undir brú á Hnoðraholti í Garðabæ með þeim afleiðingum að kassinn aftan á honum tættist í sundur. Engin slys urðu á fólki en eins og sjá má á myndum, sem ljósmyndari mbl.is tók, er ekki mikið eftir af kassa bílsins.

Hæðartakmarkanir eru við brúna og skýrar merkingar fyrir framan hana. Þrátt fyrir það gerist það öðru hverju að of háir bílar aka undir hana, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu.

„Þetta gerist alltaf af og til að menn átta sig ekki á hæð bíls og hæð brúarinnar þarna undir,“ segir Sævar Guðmundsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni í Hafnarfirði, í samtali við mbl.is.

Það kemur fyrir af og til að of háir bíla …
Það kemur fyrir af og til að of háir bíla keyra undir brúna. mbl.is/Árni Sæberg

Brúin tengir saman tvö íbúðarhverfi og umferðarhraði á svæðinu er því ekki mikill. Sævar segir höggið engu að síður töluvert þegar bíll skellur á brúnni með þessum hætti. Engar skemmdir virðast hafa orðið á brúnni við höggið en Sævar segir sjaldgæft að það gerist.

Lögregla fékk tilkynningu um atvikið klukkan tíu mínútur í sex og fóru lögreglumenn á vettvang. Lögregla hefur hins vegar litla aðkomu að árekstrum þegar ekki eru slys á fólki og var því einkafyrirtæki kallað til að sjá um málið; skýrslugerð og annað.

Tilkynnt var um atvikið rétt fyrir klukkan sex í gær.
Tilkynnt var um atvikið rétt fyrir klukkan sex í gær. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert