Ákærður fyrir áralangt ofbeldi gegn eiginkonu og dætrum

Héraðsdómur Vestfjarða
Héraðsdómur Vestfjarða Bæjarins besta

Karlmaður hefur verið ákærður af lögreglustjóranum á Vestfjörðum fyrir ofbeldi og hótanir yfir sjö ára tímabil í garð eiginkonu sinnar, en hann er meðal annars sagður hafa hótað henni lífláti, en nokkur brotanna ná til tímabils þegar konan var ólétt. Þá er maðurinn einnig ákærður fyrir líkamlegt og andlegt ofbeldi gegn þremur dætrum þeirra yfir sama tímabil.

Í umfjöllun Rúv um málið er greint frá því að maðurinn sé læknismenntaður, en í ákærunni kemur meðal annars fram að hann hafi hótað konunni lífláti með því að gefa henni of mikið insúlín með fjarstýringu sem stýrir inngjöf, en ljóst er með lestri ákærunnar að konan hafi verið sykursjúk. Þá hafi hann einnig hótað henni að hann myndi lesa öll gögn um hana í sjúkraskrá með þeim afleiðingum að hún hafi verið mjög hrædd við að greina heilbrigðisstarfsfólki frá andlegu og líkamlegu ofbeldi mannsins.

Fram kemur í ákærunni að maðurinn hafi beitt konuna ofbeldi þegar hún var ólétt með því að hrinda henni í gólfið, þrýsta hné í maga hennar og þrengt að hálsi hennar. Fékk hún af þessu maráverka, en maðurinn er sagður hafa hótað henni lífláti ef hún færi út af heimilinu án hans fylgdar í nokkra daga eftir atvikið.

Þá er hann sagður hafa þvingað hana í eitt skipti til heimilisverka og neitað henni um aðstoð þegar hún var fótbrotin og kvalin. Hann hafi hins vegar beitt hana í staðinn andlegu og líkamlegu ofbeldi og hrækt á hana og sparkað í síðu hennar. Í annað skipti hafi hann niðurlægt hana með því að hafa bannað henni að þrífa upp maís sem konan hafði misst á gólfið, heldur þvingað hana til að borða maísinn af gólfinu.

Maðurinn er jafnframt ákærður fyrir að hafa í annað skipti meðan konan var ólétt beitt hana ofbeldi í kynlífsathöfn með því að bíta svo fast í geirvörtu að hún öskraði af sársauka. Þá hafi hann í nokkru skipti niðurlægt hana, slegið hana og hrækt á hana í kynlífsathöfnum.

Að lokum er hann ákærður fyrir að hafa læst konuna inn á baðherbergi þrátt fyrir að vita að konan væri lág í sykri. Fór hann því næst með börnin úr íbúðinni og er konan sögð hafa óttast um líf sitt.

Maðurinn er svo ákærður fyrir brot gegn börnunum með því að hafa endurtekið og á sérstaklega sársaukafullan, meiðandi og alvarlegan hátt ógnað lífi og heilsu barnanna með bæði líkamlegu og andlegu ofbeldi. Er m.a. nefnt sem dæmi að maðurinn hafi slegið dæturnar á fingur í refsiskyni, lokað þær allar inni, eða í sitthvoru lagi í refsiskyni. Þá hafi hann einnig slegið eina dótturina í höfuðið með flötum lófa. Allavega tvær dæturnar voru 5 ára eða yngri þegar umrædd atvik áttu sér stað.

Konan fer í einkaréttarkröfu fram á fjórar milljónir í miskabætur, en auk þess fer hún fyrir hönd dætranna fram á að maðurinn greiði hverri og einni 1,5 milljónir í miskabætur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert