„Mun Katrín Jakobsdóttir flytja slíka ræðu?“

Karl Héðinn Kristjánsson ásamt fleiri mótmælendum í morgun.
Karl Héðinn Kristjánsson ásamt fleiri mótmælendum í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lítill hópur mótmælenda sem óttast að annað hrun sé í uppsiglingu og vill að Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra taki pokann sinn var staddur fyrir utan ráðherrabústaðinn á meðan ríkisstjórnarfundur fór fram þar í morgun. Hópurinn tengist stærri hópi fólks sem safnast saman á hverjum laugardegi og krefst afsagnar Bjarna. Ætlar fólkið að halda uppteknum hætti þar til kröfu þeirra verður mætt.

„Við erum að mótmæla ráni Íslandsbanka og pilsfaldakapítalisma og að því að hagsmunir aðstéttarinnar hafa verið settir ofar en hagsmunir almennings,“ sagði Karl Héðinn Kristjánsson, einn mótmælenda, í samtali við mbl.is fyrir utan ráðherrabústaðinn í morgun.

Hópurinn stóð fyrir utan ráðherrabústaðinn í morgun en ráðherrarnir funduðu …
Hópurinn stóð fyrir utan ráðherrabústaðinn í morgun en ráðherrarnir funduðu þar fram yfir hádegi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hafa áhyggjur af þróun mála

Vísaði hann þar til sölu ríkisins á hlut sínum í Íslandsbanka sem hlotið hefur talsverða gagnrýni og varð til þess að ríkisstjórnin ákvað að leggja bankasýsluna niður. Það sagði Karl Héðinn að hópnum þætti ekki nóg.

„Alls ekki, það er bara „cop out“ hjá þeim og þau eru bara að reyna að skýla ábyrgð sinni. Eins og fólk hefur bent á í stjórnarandstöðunni á þingi þá kvittar ráðherra upp á þetta á endanum og ber ábyrgð á því. Það er bara glatað að reyna að fyrra sig ábyrgð á því.“

Nælan sem um ræðir.
Nælan sem um ræðir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eru ekki nægilega skýr svör komin fram?

„Þetta er bara það slæmt að hann [Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra] á að segja af sér. Það er augljóst að hann er ekki að vinna að almannahagsmunum, hann er að vinna fyrir sig og sína eða sín viðskiptatengsl. Við höfum áhyggjur af því hvernig ástandið þróast. Við höfðum bankahrun fyrir áratug síðan þar sem almenningi var fórnað mikið til  í hag auðmanna og auðstéttanna,“ sagði Karl Héðinn og sýndi blaðamanni barmnælu með mynd af andliti Katrínar Jakobsdóttur á búk Geirs H. Haarde við frægt ávarp í fjármálahruninu þar sem Geir, þáverandi forsætisráðherra, bað guð almáttugan um að blessa Ísland.

„Erum við að stefna þangað aftur? Mun Katrín Jakobsdóttir flytja slíka ræðu? Munu þá aftur 10 til 15 þúsund fjölskyldur missa allt sitt fyrir hag auðvaldsins?“ spyr Karl Héðinn.

mbl.is