„Stemning fyrir heiðarleika í samfélaginu“

Dóra Björt Guðjónsdóttir kýs í Ráðhúsi Reykjavíkur.
Dóra Björt Guðjónsdóttir kýs í Ráðhúsi Reykjavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dóra Björt, oddviti Pírata í Reykjavík, segir daginn leggjast mjög vel í sig. „Þetta er auðvitað ótrúlega skemmtilegur dagur og gaman að mæta á kjörstað. Alltaf hátíðlegt að gera það og finn fyrir mikilli stemningu. Það er mikill meðbyr með okkur Pírötum og það gleður mig og ég vona auðvitað að þetta fari sem allra best.“

Þá segir hún daginn hátíðlegan í mörgu tilliti en Dóra er nýbökuð móðir og var gangan í Ráðhúsið fyrsti göngutúr sonar hennar sem er ekki orðinn þriggja vikna. „Lýðræðismenntunin hefst snemma,“ segir Dóra.

Gefa ekki afslátt af kjarnaprinsippum

Dóra Björt segir það æðislegt hvað flokkurinn hefur mælst með mikið fylgi í könnunum. „Við höfum verið að mælast með um það bil tvöfalt fylgi og í mörgum könnunum með fjóra borgarfulltrúa og erum með tvo í dag þannig það hefur verið rosalega gaman að finna fyrir slíkum meðbyr og ég held það sé bara ákveðin stemning fyrir heiðarleika í samfélaginu og gott að finna það. Við höfum líka bara skilað ótrúlega miklum árangri á kjörtímabilinu sem ég vona að fólk kunni að meta.“

„Við gefum engan afslátt af þessum kjarnaprinsippum og ég vona að fólk sjái það að við erum ekki til í málamiðlanir um það sem skiptir okkur mestu mái. Við stöndum með þessum áherslumálum alla leið,“ segir Dóra.

Hún bendir þó á að eina sem skipti raunverulega máli sé það sem kemur upp úr kjörkössunum í kvöld.

Fyrsti göngutúr sonarins var beint á kjörstað.
Fyrsti göngutúr sonarins var beint á kjörstað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvetur fólk til að nýta sinn lýðræðislega rétt

„Ég vil bara nota tækifærið og hvetja öll til að mæta á kjörstað og nýta sinn lýðræðislega rétt. Því ef að þú kýst ekki þá velur bara einhver annar fyrir þig,“ segir Dóra.

Ertu opin fyrir öðru samstarfi eða vilja Píratar sama meirihluta?

„Það hefur auðvitað gengið ofsalega vel í þessu meirihlutasamstarfi. Við höfum náð miklum krafti í stóru málin, í þessu grænu mál og þessi mikilvægu borgarþróunarmál í þágu lífsgæða almennings. Þannig að það er alveg mjög vel skoðandi að halda því áfram.“

Dóra Björt segir að Píratar hafi í rauninni aðeins útilokað samstarf við einn flokk og það er Sjálfstæðisflokkurinn.

„Það er einfaldlega vegna þess að okkar helsta baráttumál er baráttan gegn spillingu og Sjálfstæðisflokkurinn er ekki trúverðugur í því samhengi,“ segir hún.

mbl.is