Hraungos gæti valdið miklu tjóni

Þorbjörn gnæfir yfir Grindavík.
Þorbjörn gnæfir yfir Grindavík. mbl.is/Sigurður Bogi

Íbúafundur fer nú fram í Grindavík vegna óvissustigs sem lýst hefur verið vegna jarðskjálftahrinu á Reykjanesskaga. Fundurinn hófst kl. 19:30 og er fjölmennt á fundinum, en hann fer fram í íþróttamiðstöð Grindavíkur.

Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkur, er settur fundarstjóri á íbúafundinum og hóf hann mál sitt með því að upplýsa um að jarðhræringar síðustu daga hefðu ekki farið framhjá íbúum Grindavíkur.

„Hraungos á vondum stað getur valdið miklu tjóni,“ sagði Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur en hann bætti við að litlar líkur væru á að slíkt gos myndi valda manntjóni. Hann bendir á að síðasta eldgosið á Reykjanesskaga fyrir Geldingadali hafi verið árið 1240 og því hafi engin eldgos verið á Rekjanesskaganum í tæplega átta hundruð ár.

Magnús Tumi Guðmundsson er frummælandi á fundinum.
Magnús Tumi Guðmundsson er frummælandi á fundinum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Magnús bendir einnig á að við getum ekki spáð fyrirfram hvernig slík eldgos geta æxlast. „Þið hafið allskonar hugmyndir, og að hlutirnir hegði sér alltaf eins,“ segir hann.  Hann segir að gossprungur síðustu 15.000 ára ná ekki til sjávar á skaganum síðan ísa leysti og bendir á að samkvæmt jarðfræðinni ætti gos ekki að ná til Grindavíkur.

Hann nefnir eldgosin í Svartsengissveimnum á milli áranna 1226 og 1240 og segir að ef eldgos skyldi hefjast á Reykjanesskaganum þá yrði það svipað þeim. Hann segir að ef gos skyldi hefjast á sunnanverðum Reykjanesskaga þá yrði Bláa lónið undir og mögulega mikið tjón.

Magnús sagði hins vegar að ómögulegt sé að vita hvenær eldgos muni hefjast. Jarðskjálftahræringar síðustu daga gætu þess vegna hætt á morgun.

mbl.is