Kirkjan tapaði máli gegn ríkinu

Frá starfi íslenska þjóðkirkjusafnaðarins í Noregi í vetur
Frá starfi íslenska þjóðkirkjusafnaðarins í Noregi í vetur Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er náttúrlega alveg ferlegt en þetta er samt bara fyrsta dómstig,“ segir Hjörleifur Valsson, fiðluleikari og varaformaður stjórnar íslenska safnaðarins í Noregi. Fyrir helgi sýknaði héraðsdómur í Ósló ráðuneyti barna- og fjölskyldumála í máli sem íslenskir, sænskir og finnskir þjóðkirkjusöfnuðir í Noregi höfðuðu til að fá greidd rétt sóknargjöld fyrir árin 2017-2019.

Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu snerist málið um reglur um skráningu í trúfélög í Noregi sem tóku gildi í byrjun árs 2016. Sú breyting var þá gerð að öll trúfélög þurfa að fá samþykki í Noregi fyrir skráningu sóknarbarna, óháð skráningu þeirra í heimalandinu.

Tapaði miklum sóknargjöldum

Fram að því höfðu Íslendingar sem skráðir eru í þjóðkirkjuna sjálfkrafa verið skráðir í íslenska söfnuðinn við flutning til Noregs. Því þurfti að hafa samband við alla Íslendinga í landinu, skrá þá á ný og við það tapaði söfnuðurinn miklum sóknargjöldum.

Breytingin á skráningu 2016 olli heilmiklum tekjusamdrætti hjá íslenska söfnuðinum í Noregi. Fækka þurfti stöðugildum og draga verulega úr starfsemi. Þá var um tíma hugleitt að selja Ólafíustofu í Ósló, sem gegnir svipuðu hlutverki og Jónshús í Kaupmannahöfn.

„Við erum með ofsalega góða lögfræðinga sem voru vel undirbúnir og fluttu málið vel. Nú munum við halda fund og ráða ráðum okkar með þeim um framhaldið,“ segir Hjörleifur við Morgunblaðið.

„Fyrir okkur er þetta réttlætismál. Það hefur komið fram að við höfum staðið rétt að öllu varðandi innheimtu á sóknargjöldum og þetta var mikið högg fyrir söfnuðinn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert