Fjölgar í teymi Carbfix

Edda Ragnarsdóttir.
Edda Ragnarsdóttir. LJósmynd/Aðsend

Carbfix hefur ráðið þrjá starfsmenn með það að markmiði að halda áfram að byggja upp loftslagsvænan iðnað sem byggir á grænni nýsköpun og íslensku hugviti.

Þetta kemur fram í tilkynningu.

Edda Björk Ragnarsdóttir og Ólafur Einar Jóhannsson hafa verið ráðin til að sinna sérfræðistörfum á sviði viðskiptaþróunar á alþjóðavettvangi til að styðja við frekari vöxt Carbfix á heimsvísu. 

Ólafur Einar Jóhannsson.
Ólafur Einar Jóhannsson. Ljósmynd/Aðsend

Edda Björk er lögfræðingur og hefur undanfarin ár starfað hjá Samtökum iðnaðarins. Þar áður var hún sérfræðingur í fastanefnd Íslands í Genf, starfaði hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði hugverkaréttar og við lögfræðirannsóknir við Háskóla Íslands. 

Ólafur Einar er viðskiptafræðingur með MBA-gráðu. Hann hefur yfirgripsmikla reynslu af alþjóðlegri viðskiptaþróun og stjórnun í kaupskipaútgerð, rekstri og tæknilegum skiparekstri.

Heiða Aðalsteinsdóttir.
Heiða Aðalsteinsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Heiða Aðalsteinsdóttir hefur verið ráðin til að sinna stefnumótandi stjórnun og hafa umsjón með skipulagi og umhverfismati á starfssvæðum Carbfix. Heiða er menntuð landslagsarkitekt auk þess að hafa BA gráðu í alþjóðaviðskiptum. Heiða hefur víðtæka reynslu af því að stýra þverfaglegum verkefnum í stefnumótun, skipulagi og umhverfismati. 

Carbfix hefur þróað tækni fyrir varanlega bindingu koldíoxíðs í berg, sem notuð hefur verið í áratug með góðum árangri og vakið heimsathygli. Mikill áhugi er á að nýta hana á mun stærri skala, bæði hérlendis og erlendis, og allmörg samstarfsverkefni eru ýmist hafin eða í burðarliðnum.

mbl.is