Cocoa Puffs „tilgangur lífsins“

Okkur fannst við þurfa að svara eftirspurninni, segir Ágústa.
Okkur fannst við þurfa að svara eftirspurninni, segir Ágústa. Ljósmynd/General Mills

Cocoa Puffs kemur aftur í verslanir á Íslandi eftir að uppskrift var breytt til að standast reglugerðir. Mikil eftirspurn hefur verið eftir morgunkorninu sem landsmenn geta nú glaðst yfir að sé á heimleið aftur. 

„Við teljum þetta vera stóran sigur. Við fundum fyrir mikilli eftirspurn eftir Cocoa Puffs og það varð mikil reiði hérlendis í fyrra þegar okkur var bannað að selja Cocoa Puffs áfram. Við sáum Twitter-færslurnar þar sem fólk sagði að Cocoa Puffs væri tilgangur lífsins,“ segir Ágústa Hrund Steinarsdóttir, markaðsstjóri dagvöru hjá Nathan & Olsen, sem flytur inn Cocoa Puffs.

En í dag bárust þau tíðindi að morgunkornið geysivinsæla, sem hvarf af íslenskum dagvörumarkaði snemma árið 2021, væri senn á ný á boðstólum við morgunverðarborð landsmanna. Uppskriftin hafi verið lítillega aðlöguð frá þeirri sem þekkst hafi á landinu undanfarna áratugi og ætti að vera komin í verslanir fyrir helgina. Svo landsmenn geta vaknað á laugardag og fengið sér Cocoa Puffs-skál.

Sátt með útkomuna

„Þetta ætti að vera komið í verslanir fyrir helgi, og þetta er alvöru Cocoa Puffs nema þeir breyttu uppskriftinni svo hún stæðist þessa reglugerð. Cocoa Puffs hefur breytt uppskriftinni lítillega oft í gegnum árin og þetta er alvöru Cocoa puffs bragð þó það sé örlítið breytt og áferðin sé smávegis öðruvísi. Mjólkin verður súkkulaðimjólk og allt þetta. Í raun er minni sykur og fita og meira prótein svo þetta er í raun örlítið hollara,“ segir Ágústa en hún segir eftirspurnina hafa verið mikla á meðan morgunkornið var ekki fáanlegt.

„Okkur fannst við þurfa að svara eftirspurninni og höfum nú fundið framleiðanda sem framleiðir Cocoa Puffs sem stenst Evrópulöggjöfina. Það er framleiðandi í Portúgal sem framleiðir vöruna fyrir Mið-Austurlönd og nú Ísland.“

Svara eftirspurn

Eftir að fréttir bárust af því í fyrra að breyting á innihaldslýsingu morgunkornsins gerði það að verkum að ekki væri leyfilegt að selja vöruna hérlendis sökum Evrópureglugerðar fóru landsmenn að byrgja sig upp af morgunkorninu góðkunna. Fóru Nathan & Olsen þá í leit að framleiðanda sem stæðist reglugerðina og framleiddi Cocoa Puffs fyrir evrópskan markað.

Ágústa segir framleiðandann í raun vera þann sama og áður fyrr: „Cocoa Puffs er ekki jafn vinsæl í Evrópu og það er í Bandaríkjunum og á Íslandi. Við fundum Evrópskan framleiðanda í Portúgal sem framleiðir Cocoa Puffs fyrir Mið-Austurlönd svo þetta er í raun sami framleiðandi og við höfum verið að kaupa af, nema hann er ekki staðsettur í Bandaríkjunum.“

Morgunkornið hvarf af Íslandi í fyrra.
Morgunkornið hvarf af Íslandi í fyrra. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert