Málflutningurinn standist ekki skoðun

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri …
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins og Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. Ljósmynd/Samsett

„Ég hef skoðað þessi mál töluvert. Öll gögn sýna það að Ísland er svo sannarlega ekki með hörðustu útlendingalöggjöfina í Evrópu. Það sést á þeim fjölda sem hér sækir um og á þeim fjölda sem fær alþjóðlega vernd. Ég tel að þessi málflutningur standist ekki nokkra einustu skoðun,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, um gagnrýni frá stjórnarandstöðunni á Alþingi í gær.

Katrín gat ekki sagt beint hvort kæmi til greina að stöðva brottvísun flóttamannanna 300 sem stendur til að senda úr landi. Hún segir að verið sé að skoða hvort um sérstakar aðstæður geti verið að ræða.

„Það er verið að skoða samsetningu hópsins. Hvort sérstakar aðstæður eigi við. Þetta er fólk sem er búið að fara í gegnum okkar kerfi, sem er samkvæmt lögum sem voru samþykkt hér árið 2016 og hefur í raun lokið sínu ferli innan kerfisins. Vegna aðstæðna er enn verið að leita upplýsinga frá nágrannalöndunum hvort þau sendi fólk til Grikklands. Dómsmálaráðuneytið er að kanna það,“ segir forsætisráðherra í viðtali við mbl.is.

„Eitt af því sem hefur verið rætt tölu­vert lengi, og er mín per­sónu­lega skoðun, er hversu erfitt er fyrir fólk að komast hingað til at­vinnu í raun og veru. Sum fara í gegnum neyðar­kerfi sem kannski á ekki við í öllum til­vikum. Mér finnst það vera mál sem ætti að fá sérstakan forgang í þeirri umræðu.“

Að hluta til fortíðarvandi

„Að hluta til erum við að glíma við fortíðarvanda sem meðal annars tengist Covid-19,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, í samtali við mbl.is.

„Það er mjög mikilvægt að menn skilji hvað neyðarkerfi þeirra sem sækja um vernd þýðir og að gera greinarmun á því og á þeim sem eru að koma hingað í atvinnuleit. Hvort það sé hægt að sameina það með einhverjum hætti, eins og hefur verið rætt, sem er hvergi gert í heiminum.“

Spurður út í aðstæðurnar sem hafa myndast í borgarstjórnarviðræðum talar Sigurður Ingi um skyldur borgarfulltrúa.

„Þetta er sérstök staða, að menn vilja ekki tala við allt og alla. Þá verða náttúrlega færri valkostir uppi á borði. Það er hins vegar skylda borgarfulltrúa að stýra sveitarfélaginu. Ef það er gert með starfhæfum meirihluta, sem er algengast, þá eiga menn að horfa til þess. Ég held að það sé mikilvægt að nýkjörnir borgarfulltrúar geri það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert