Ákærður fyrir brot gegn 16 stúlkum

Maðurinn verður áfram í gæsluvarðhaldi.
Maðurinn verður áfram í gæsluvarðhaldi. mbl.is/Hallur Már

Héraðssaksóknari hefur ákært mann fyrir kynferðisbrot gegn sextán stúlkum á aldrinum ellefu til fimmtán ára. Einnig er hann ákærður fyrir vörslu á barnaníðsefni.

Þetta kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurði Landsréttar sem kveðinn var upp í dag. Maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 9. desember og staðfesti Landsréttur áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum til 20. júní.

Í frétt Ríkisútvarpsins kemur fram að maðurinn er á sjötugsaldri. 

Ákæra héraðssaksóknara skiptist í tvo liði. Annars vegar er maður ákærður fyrir brot gagnvart sjö stúlkum og hins vegar fyrir brot gegn tíu stúlkum. Má lesa úr þessu að maðurinn er ákærður tvisvar fyrir brot gegn einni stúlku. Í úrskurðinum er minnst á sextán brotaþola. 

Sendi kynferðislegar myndir

Manninum er gert að hafa viðhaft við þær kynferðislegt tal og sent sumum þeirra kynferðislegar myndir. Í tvö skipti reyndi maðurinn að mæla sér mót við þær.

Maðurinn neitar alfarið sök í málinu. Í úrskurðinum er færð rök fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi;

„Brotaferill ákærða hefur verið nánast samfelldur frá því í byrjun maí 2021. Þá verður að líta til þess að um er að ræða kynferðisbrot sem beinast gegn börnum allt niður í 11 ára gömlum. Ljóst er að háttsemi hans er til þess fallin að ógna heilsu og velferð barna[..].“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert