Brottvísanirnar í „stöðugri vinnslu“

Fjöldabrottvísanir flóttafólks voru ræddar á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Fjöldabrottvísanir flóttafólks voru ræddar á ríkisstjórnarfundi í morgun. mbl.is/Hákon

Fyrirhugaðar fjöldabrottvísanir voru ræddar á ríkisstjórnarfundi í morgun en til stendur að vísa tæplega 200 einstaklingum úr landi.

„Dómsmálaráðherra kom með minnisblað að minni beiðni um stöðu þess máls. Það sem kemur meðal annars fram er að þessi hópur er tæplega 200 en ekki 300 eins og haldið hefur verið fram. Það eru ýmsar skýringar á því. Sum hafa fengið áframhaldandi meðferð sinna mála, önnur eru hreinlega farin,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

„Það sem nú stendur yfir er að greina þennan hóp betur, því þetta er ekki einsleitur hópur. Ég legg áherslu á að við getum ekki fjallað um hann sem slíkan, heldur eru þetta ólíkir einstaklingar og þar eru ýmis sjónarmið sem koma upp. Til dæmis varðandi fjölskyldufólk, hópa sem á að senda aftur til tiltekinna ríkja sem þarf að skoða betur, þannig að málið er áfram í vinnslu.“

Spurð um hvort sú ákvörðun verði tekin að stöðva brottvísanirnar segir Katrín að málið sé í stöðugri vinnslu.

Útlendingastefna á Íslandi ekki sú harðasta í Evrópu

Hefur Katrín óskað eftir upplýsingum um hvort önnur Evrópuríki sendi flóttafólk til Grikklands.

„Það er verið að afla þessara upplýsinga, við erum eingöngu komin með svör frá Finnlandi og Danmörku og þau eru að senda flóttafólk til Grikklands,“ segir hún.

Erum við með harða útlendingastefnu hér á landi?

„Ef við berum okkur saman við önnur Norðurlönd, myndi ég segja að það væri ekki raunin og það sést auðvitað bara á þeim fjölda sem hingað kemur og fær alþjóðlega vernd, sem er hlutfallslega meiri en annars staðar. Miðað við þær ráðstafanir sem ýmis önnur ríki hafa gripið til, þá held ég að ekki sé hægt að tala um okkar stefnu sem þá hörðustu í Evrópu eins og einhverjir hafa gert.“

Fá flóttamenn frá öðrum löndum verri þjónustu en flóttafólk frá Úkraínu?

„Við höfum verið að ræða þessi málefni og auðvitað eru sérstakar aðstæður sem lúta að fjöldaflótta vegna fólks frá Úkraínu. Það hefur ekkert að gera með það að þau komi frá Úkraínu heldur vegna þess að aðstæðurnar eru skilgreindar sem fjöldaflótti. Því virkjast ákveðnar greinar útlendingalaga sem eiga við í því tilfelli en við höfum einmitt verið að fara yfir hvernig við getum tryggt að flóttafólk njóti síðan algjörlega sömu réttinda, óháð því hvort það er frá Úkraínu eða ekki.“

„Ég get nefnt eitt dæmi sem við vorum að ræða á ríkisstjórnarfundi sem eru tómstundastyrkir til barna í hópi hælisleitenda. Þeir eiga við um öll börn en ekki bara börn frá Úkraínu, þannig að við erum að reyna að vera á vaktinni gagnvart þessu.“

Ólík nálgun stjórnarflokka

Guðmundur Ingi Guðbrandsson félagsmálaráðherra sagði á þriðjudag að ákvarðanir um að vísa fólki úr landi væru rangar og að hann fylgdi mannúðlegri útlendingastefnu VG.

„Það liggur alveg fyrir að nálgun þessara þriggja flokka sem eru í ríkisstjórn er auðvitað að einhverju leyti ólík en um leið eru lögin okkar byggð á því sjónarmiði að mannúð eigi að vera að leiðarljósi í öllum okkar ákvörðunum, þannig það auðvitað hlýtur að vera hér eftir sem hingað til okkar leiðarljós í þessu,“ segir Katrín.

mbl.is