Erna nýr ráðuneytisstjóri og Páll til Genfar

Erna Kristín Blöndal hefur verið skipuð ráðuneytisstjóri í mennta- og …
Erna Kristín Blöndal hefur verið skipuð ráðuneytisstjóri í mennta- og barnamálaráðuneytinu, en Páll Magnússon, sem var skipaður í starfið árið 2019, fer til starfa hjá fastanefnd Íslands í Genf. Samsett mynd

Erna Kristín Blöndal skrifstofustjóri hefur verið skipuð í embætti ráðuneytisstjóra mennta- og barnamálaráðuneytisins frá og með deginum í dag. Erna tekur við af Páli Magnússyni en hann fer til starfa hjá fastanefnd Íslands í Genf, að því er kemur fram í tilkynningu. Hann hefur gegnt embættinu frá árinu 2019.

Í Genf mun Páll starfa á sviði málefna barna m.a. við að efla alþjóðlegt samstarf íslenskra stjórnvalda hvað varðar velferð og réttindi barna en einnig á sviði alþjóðavinnumála og alþjóðaheilbrigðismála m.a. með eflingu tengsla við Alþjóðavinnumálastofnunina (ILO) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO).

Erna er með BA- og meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands, býr yfir mikilli reynslu af störfum innan Stjórnarráðsins og íslenskrar stjórnsýslu og hefur haldið utan um stór verkefni á vegum íslenskra stjórnvalda, segir í tilkynningu.

Hún hefur gegnt emb­ætti skrifstofustjóra síðan 2019, fyrst á skrifstofu barna- og fjölskyldumála hjá félagsmálaráðuneytinu (nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti) og nú síðast skrifstofu barnamála í mennta- og barnamálaráðuneyti.  

Kærunefnd úrskurðaði um ráðningu Páls

Á sínum tíma komst kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þáverandi menntamálaráðherra, nú menningar- og viðskiptaráðherra, hefði brotið jafn­rétt­is­lög með ráðningu Páls, í stöðu ráðuneyt­is­stjóra menntamálaráðuneytisins, í stað þess að ráða Haf­dísi Helgu Ólafs­dótt­ur í starfið. Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði kröfu Lilju um að úrskurður kærunefndar jafnréttismála yrði ógiltur.

Í úr­sk­urði kær­u­nefnd­ar­inn­ar sagði m.a. að ann­mark­ar hafi verið á málsmeðferð og ákv­arðana­töku ráðuneyt­is­ins við mat og val á um­sækj­end­um um stöðuna. Þannig hafi mennt­un, reynsla af op­in­berri stjórn­sýslu, leiðtoga­hæfi­leik­ar og hæfni Haf­dís­ar verið van­met­in.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert