Meirihluti telur #metoo-umræðu jákvæða

Þórey Vilhjámsdóttir Proppé, annar stofnanda Empower.
Þórey Vilhjámsdóttir Proppé, annar stofnanda Empower. Ljósmynd/Aðsend

Sex af hverjum tíu telja #metoo-umræðu jákvæða. Þetta er niðurstaða könnunar um kynin og vinnustaðinn en um er að ræða samstarfsverkefni Empower, Viðskiptaráðs Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Maskínu og Háskóla Íslands.

Fjórðungur kvenna og fimmtungur karla telur hins vegar að ekki hafi verið tekið vel á #metoo-málum á þeirra vinnustað.

Neikvæðni gagnvart áhrifum #metoo vex með aldri og var mest í elsta aldurshópi karla og kvenna, 60 ára og eldri.

„Það er til mikils að vinna að bregðast rétt við og skapa aðstæður sem stuðla að góðri vinnustaðamenningu, þar sem mismunun, kynbundin áreitni og ofbeldi fær ekki þrifist. Þá skiptir öllu máli að byggja þær ákvarðanir á gögnum til þess að koma veg fyrir ómeðvitaða fordóma og hlutdrægni.  Að byggja upp heilbrigða vinnustaðamenningu er eitt mikilvægasta verkefni nútímafyrirtækja,“ er haft eftir Þóreyju Vilhjálmsdóttur, stofnanda og eiganda fyrirtækisins Empower í tilkynningu.

Frá opnum fundi í dag sem fjallaði um niðurstöður könnunar …
Frá opnum fundi í dag sem fjallaði um niðurstöður könnunar um ólík viðhorf kynjanna til vinnustaðamenningar. Ljósmynd/Aðsend

Hinsegin fólk verður frekar fyrir áreitni

Þrisvar sinnum fleiri konur en karla telja sig bera ábyrgð á heimilinu og er munurinn meiri hjá kynjum í stjórnunarstöðum.

Konur upplifa frekar að þær þurfi að sanna sig meira og að talað sé niðurlægjandi um kyn þeirra. Fleiri konur telja einnig að litið hafi verið framhjá þeim vegna kyns þegar kemur að framgangi innan fyrirtækis.

Fleiri konur en karlar verða fyrir kynferðislegri áreitni og hinsegin fólk verður frekar fyrir kynferðislegri áreitni en gagnkynhneigt sís fólk.

Alls voru 12 þúsund manns í 53 fyrirtækjum hjá Samtökum atvinnulífsins og Viðskiptaráði í úrtaki og um þriðjungur svaraði, eða rúmlega fjögur þúsund. Könnunin fór fram dagana 26. apríl til 16. maí.

mbl.is
Loka